Nýjast á Local Suðurnes

Mikill verðmunur á eldsneyti á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum

Allt að 12 krónum munar á verði á eldsneyti á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum, ef marka má verðkönnunarþjónustu GSMbensín. Verðin í könnun GSMbensín miðast við sjálfsafgreiðslu án afslátta og eru uppfærð á nokkura mínútna fresti eftir tilkynningum frá olíufélögunum.

Orkan X og Dælan bjóða lægsta verð á eldsneyti á höfuðborgarsvæðinu. Orkan X er rekin af Skeljungi, en Dælan af N1, en hvorugt fyrirtækið hefur séð ástæðu til þess að setja upp þessar stöðvar á Suðurnesjum, einu stærsta markaðssvæði landsins.

Verð á bensíni hjá Orkan X er um þessar mundir í kringum 185 krónur og hjá Dælunni um 188 krónur, verð á díselolíu er á um 173 krónur hjá Orkunni X. Algengt verð á sjálfsafgreiðslustöðvum á Suðurnesjum er hins vegar um 198 krónur líterinn af bensíni, en um 185 krónur á díselolíu.

Orkan býður nær alltaf besta verð á eldsneyti á Suðurnesjum, en ÓB og Atlantsolía fylgja yfirleitt fast á eftir. Rétt er að taka fram að hvorki Orkan X né Dælan bjóða upp á afsláttarkjör á sínum stöðvum.