Nýjast á Local Suðurnes

Hópferðir Sævars taka við almenningssamgöngum í Reykjanesbæ – Áfram frítt í strætó

Ekki verður hafin gjaldtaka í strætó í Reykjanesbæ í sumar, en líklegt er að byrjað verði að innheimta hóflegt gjald í haust. Hópferðir Sævars munu sjá um aksturinn í Reykjanesbæ frá og með fyrsta júní næstkomandi, en fyrirtækið átti lægra tilboðið af tveimur, þegar þjónustan var boðin út í janúar síðastliðnum.

Guðlaugur Helgi Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Umhverfis- og skipulagssviðs Reykjanesbæjar, sagði í svari við fyrirspurn Suðurnes.net að ekki væri fyrirhugað að taka gjald í strætó í sumar, en líklegt væri að það yrði gert með haustinu, en ekki væri búið að ákveða hvert gjaldið yrði. Þá sagði Guðlaugur að ekki væri fyrirhugað að breyta áætluninni um sinn.

Fimm vagnar verða í akstri á vegum Hópferða Sævars, jafn margir og fyrir voru í akstri á vegum SBK, sem hefur séð um aksturinn undanfarin ár. Að sögn Sævars Baldurssonar hjá Hópferðum Sævars, eru bílarnir fimm allir nýlegir og vel búnir. Meðal annars er lögð mikil áhersla á að aðgengi fyrir fatlaða sé með besta móti. Þá eru gólf hinna nýju vagna parketlögð og rými fyrir farþega sem ferðast með barnavagna, eða annan farangur, með því besta sem gerist. Þá eru bílarnir búnir örgyggismyndavélakerfi.