Nýjast á Local Suðurnes

Bæjarstjóri í sóttkví: “Það er full ástæða til að taka ástandið alvarlega”

Ásgeir Eiríksson, bæjarstjóri Sveitarfélagsins Voga, fer yfir áhrif kórónuveirufaraldarins í pistli á heimasíðu sveitarfélagsins, en hann situr nú í sóttkví eftir utanlandsferð til Spánar á dögunum. Ásgeir segir meðal annars í pistlinum að það sé full ástæða til að taka ástandið alvarlega og að ástandið sé nokkru betra hér á landi en á Spáni.

“Hér á landi erum við þó heppin að einungis ríkir samkomubann, en ekki útgöngubann. Á Spáni mátti einungis fara út til að fara í matvörubúð og apótek, og þá aðeins einn í einu. Ekki mátti fara út í gönguferðir eða neitt slíkt, heldur voru fyrirmælin skýr: Halda sig heima.” Segir Ásgeir meðal annars í pistlinum.

Þá fer Ásgeir yfir þær ráðstafanir sem gripið hefur verið til í Vogum, en þar, líkt og í öðrum sveitarfélögum, eru upplýsingar varðandi aðgerðir sveitarfélagsins aðgengilegar á vefsíðu Voga.

“Sveitarfélagið Vogar hefur nú gefið út aðgerðaráætlun um órofna starfsemi og þjónustu, sem og viðbragðsáætlun sveitarfélagsins. Þessar áætlanir eru báðar aðgengilegar á heimasíðu sveitarfélagsins, ásamt margvíslegum öðrum nytsamlegum upplýsingum sem öllum hefur verið safnað saman á einn stað á heimasíðunni. Þá hefur verið ákveðið að þeir foreldrar sem kjósa að nýta ekki leikskóladvöl fyrir börn sín meðan á samkomubann varir fá leikskólagjöldin felld niður. Þá er jafnframt ákveðið að einungis er greitt fyrir þá þjónustu leikskólans sem nýtt er, þ.e. ekki er innheimt gjald fyrir leikskóladvöl nema hún sé nýtt.” Segir í pistli bæjarstjórans.