Nýjast á Local Suðurnes

Íslenskan fyrirstaða hjá útlendingum í atvinnuleit

Erlendir íbúar á Suðurnesjum eiga í erfiðleikum með að fá störf við hæfi þar sem gott vald á íslensku máli er nánast undadntekningalaust skilyrði fyrir ráðningu. Þetta á meðal annars við um verkmanna- og þjónustustörf hjá stórum fyrirtækjum eins og til að mynda Isavia, Skólamat, Rúmfatalagernum og Ístak sem undanfarið hafa auglýst eftir fólki til starfa.

Atvinnuleysi hefur undanfarið verið um og yfir 25 prósent á Suðurnesjum, rúmlega tvöfalt meira en á höfuðborgarsvæðinu þar sem það er næstmest, eða um og yfir 10 prósent, fjöldi erlendra íbúa er á meðal þeirra sem eru á skrá yfir atvinnulausa á Suðurnesjum.

Erlendir aðilar í atvinnuleit sem Suðurnes.net hefur rætt við segja það skjóta skökku við að gott vald á íslensku máli sé skilyrði fyrir því að eiga möguleika á atvinnu, sérstaklega í ljósi þess fólk hafi verið ráðið til starfa til að mynda á Keflavíkurflugvelli fyrir Covid-faraldurinn þar sem áhersla var lögð á að menn hefðu gott vald á enskri tungu.