Nýjast á Local Suðurnes

Auglýsa starf framkvæmdastjóra fjármála á HSS

Starf framkvæmdastjóra fjármála á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja hefur verið auglýst laust til umsóknar. Leitað er að einstaklingi með þekkingu á opinberum fjármálum, reynslu af fjármálastjórnun, áætlanagerð og uppgjöri, greiningarvinnu og framsetningu fjármálaupplýsinga. Framkvæmdastjóri fjármála heyrir undir forstjóra og er hluti af framkvæmdastjórn Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, segir í auglýsingu.

Helstu verkefni og ábyrgð: 

  • Framkvæmdastjóri fjármála ber ábyrgð á að bókhald sé fært á réttum tíma í samræmi við reglur Fjársýslu ríkisins þannig að fjárhagskerfi ríkisins gefi rétta mynd af fjárhagsstöðu stofnunarinnar
  • Ber ábyrgð á greiningu og miðlun fjárhagsupplýsinga 
  • Stuðlar að hagkvæmum rekstri, í samræmi við samþykktar áætlanir 
  • Tryggir réttar og tímanlegar fjárhagsupplýsingar, tilkynna og skýra frávik frá rekstri 
  • Ráðgjöf um úrbætur í rekstrarlegum málefnum 
  • Samantekt og skil á mánaðarlegum útkomuspám 
  • Eftirlit með innkaupum og kostnaði tengdum samningum 
  • Önnur tilfallandi verkefni sem forstjóri felur viðkomandi 

Menntunar- og hæfniskröfur: 

  • Háskólamenntun á sviði viðskiptafræði, fjármálastjórnunar eða sambærileg menntun sem nýtist í starfi 
  • Reynsla af áætlanagerð og rekstrargreiningu 
  • Þekking á áætlunar- og bókhaldskerfi ríkisins er kostur 
  • Starfsreynsla úr sambærilegum störfum æskileg 
  • Hæfileiki til að miðla efni til stjórnenda og starfsfólks og ytri aðila 
  • Þekking á opinberum innkaupum og samningagerð 
  • Skipulögð, sjálfstæð og öguð vinnubrögð 
  • Faglegur metnaður, frumkvæði, samstarfshæfni og jákvætt hugarfar 
     

Á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja starfa 450 einstaklingar í 250 stöðugildum. Stofnunin veitir íbúum Suðurnesja fyrsta- og annars stigs heilbrigðisþjónustu. Fram undan er endurskoðun á þjónustuferlum sem og stefnu stofnunarinnar byggðri á Heilbrigðisstefnu til ársins 2030. 

Umsóknarfrestur er til og með 15. mars 2024. Umsókn óskast fyllt út á www.starfatorg.is og þarf henni að fylgja ítarleg náms- og starfsferilskrá og kynningarbréf þar sem gerð er grein fyrir hæfni umsækjanda til að gegna stöðunni. Auk þess eru umsækjendur beðnir um að skila afriti af prófskírteinum á pdf formi auk upplýsingum um þá umsagnaraðila sem má hafa samband við.  

Laun samkvæmt gildandi kjarasamningi sem fjármála- og efnahagsráðherra og viðkomandi stéttarfélag hafa gert. Gert er ráð fyrir að ráðning taki gildi 1. apríl 2024 eða eftir nánara samkomulagi. Starfshlutfall er 100%