Nýjast á Local Suðurnes

Einelti er ógeð – Hápunktur söfnunar Á allra vörum í dag

Hugmyndin að baki átaksins Á allra vörum að þessu sinni er að safna fyrir samskiptasetri sem hefur það hlutverk að styðja við bakið á börnum og ungmennum sem glíma við einelti – hvort heldur sem um er að ræða gerendur eða þolendur. Það eru samtökin Erindi sem ætla að starfrækja miðstöðina, en innan þeirra raða er fagfólk í málaflokknum.

Hápunktur söfnunarinnar er í dag og mun vera í bein útsending á Rás 2 þar sem tekið verður við framlögum í síma 512 2020 – Fólki gefst kostur á að kaupa spilun á uppáhalds laginu sínu eða það sem betra er að kaupa spilun á nógu leiðinlegu lagi til þess að það verði keypt út!

„Erindi eru samtök fagfólks á sviði uppeldis-, lýðheilsu- og menntunarfræða og hafa það hlutverk að miðla fræðslu og skapa almenna umræðu um málefni sem varða hag bara og ungmenna á öllum skólastigum, og við höldum að þetta smellpassi inn í okkar þjófélag núna“, segir Guðný Pálsdóttir, Á allra vörum.

Markmið Erindis er að opna samskiptasetur þar sem aðstandendur í eineltismálum geta fengið ráðgjöf og þjónustu frá fagaðilum.

„Við sem störfum að skóla- og uppeldismálum eða á annan hátt í þágu barna og unglinga vitum hversu alvarlegar afleiðingar einelti getur haft bæði fyrir þá sem verða fyrir því og hina sem gerast sekir um það. Afleiðingarnar snerta ekki aðeins börnin sjálf heldur líka fjölskyldur þeirra. Það er sýn okkar sem standa að samtökunum Erindi, að það sé mikilvægt að styðja bæði þá sem verða fyrir einelti en líka hina sem leggja í einelti, segir Björg Jónsdóttir, Erindi.

Erindi er ekki rekið í hagnaðarskyni. Samtökin eru byggð á áhuga og eldmóði fagfólks sem starfar í fjölbreyttu skólaumhverfi og á vettvangi félagsþjónustu. Þessir aðilar þekkja mikilvægi þess að miðla fjölbreytilegri þekkingu, reynslu og sjónarmiðum í skólastarfi og vilja setja mark sitt á gæði þess. Þá leggja samtökin áherslu á að skapa samræðu á skólavettvangi sem sameinar krafta nemenda, foreldra/forráðamanna og fagfólks við að beita árangursríkum vörnum gegn hverskyns niðurbroti í samskiptum og hámarka vellíðan allra nemenda. Nánari upplýsingar á erindi.is