Nýjast á Local Suðurnes

Justin Bieber og Útvarp Saga koma fyrir í föstudagspistli Árna Árna

Arnþrúður Karlsdóttir á útvarpi Sögu greindi þjóðinni frá því í vikunni að útvarp Saga er í raunheimi – já ég ætla að leyfa mér að vísa því á bug. Útvarp Saga er hálfgerð tímaskekkja og skoðanir útvarpsmanna eiga kannski samleið með þeim sem áður bjuggu í torfkofum. Ef maður vill upplifa skoðanir liðinna tíma þar sem þröngsýni, vanþekking á umheiminum, kvenfyrirlitning og útlendingahatur settu svartan blett á samfélög um heim allan, þá stilli ég á útvarp Sögu. Afsakið mig samt ég er að ljúga, ég nenni ekki að velta mér upp úr fortíðarfyrirhyggju og hlusta aldrei á þessa útvarpsstöð.

local

Árni Árnasson

Skellti mér á borgarstjórnarfund í vikunni sem var mjög fróðlegt. Þar sá ég brot af meirihlutanum reyna að verja gjörðir sínar varðandi sniðgöngu á Ísraelskum vörum. Það var sorglegt að sjá að borgarstjórinn reyndi sem hann gat að réttlæta málið vegna umræðu á Alþingi, reyndi að ná til samvisku þeirra sem ljáðu honum eyra með að blanda inn í að innkaupastýring borgarinnar ætti að hafa mannréttindi að leiðarljósi og að minnihlutinn hefði nánast kosið með tillögunni hefði Kína verið með í pakkanum. Hvernig á að versla inn út frá mannréttindarsjónarmiðum? Ég er mikill mannréttindasinni, en ég eins og aðrir í hinum vestræna heimi loka augunum gagnvart því að mikið af vinsælum vörum eru unnar af börnum í þrælkunarvinnu. Hvernig á þá að skýra eða draga línuna í mannréttindarbrotum ? Mannréttindi eru brotin á sjálfu Íslandi. Borgarstjóri gat ekki séð skaðsemina sem minnihlutinn benti á þessu máli og gerði svo lítið úr bréfi bankastjóra Arion banka, að hald mætti að um blíðuhót hafi verið að ræða og bankastjórinn að bjóða honum á Everest í bíó svo tíðindalaust var bréfið. Þá vakti undrun mína að meirihlutinn gat ekki samþykkt tillögu minnihlutans um að draga vitleysuna til baka og lögðu sömu tillögu orðrétt fram. Ég vil samt taka það fram að ég styð sjálfstætt ríki Palestínu og hryllir yfir ástandinu, en Reykjavík er ekki sjálfstætt ríki og á ekki að hafa sjálfstæða utanríkisstefnu.

Talandi um tillögu borgarstjórnarmeirihlutans, situr ekki Birgitta Jóns pírati upp á Alþingi og vill sniðganga vörur frá Kína. Nú er hún á öðru kjörtímabilinu en það hefur alveg farið fram hjá henni að Ísland og Kína skrifuðu undir fríverslunarsamning. Hvernig verður vöruúrvalið í þessu landi ef við ætlum að sniðganga hitt og þetta? Ég ítreka orð frá því um daginn, ég vil fíkniefnalaust Alþingi 2020.

Það munar ekki um fjaðrafokið í kringum Justin Bieber sem lenti á landinu í vikunni. Justin kom í stutta heimsókn og má með sanni segja að landinn stóð á öndinni. Hvert fótmál hans var skráð sama hvort strákgreyið fékk sér í gogginn á Subway eða kastaði af sér vatni á Olís á Selfossi. Þetta gekk svo langt að tekin var mynd af sjálfu salerninu og það kæmi mér ekki á óvart að smástelpurnar hafi farið og mátað það – Þá tæmdist heilt barnaafmæli í Vestmannaeyjum þegar goðið steig á land þar og mynd af kappanum berum á ofan var eins og ælupest á samfélagsmiðlum. En það sem stendur upp úr í þessu öllu saman er að íslenskar stúlkur féllu fyrir pick-up línunni „hey viltu koma upp á hótelherbergi og hlusta á nýju plötuna mína?“

Það stefnir í að árabátar verði mun áberandi á toppum bifreiða þegar íslendingar stefna norður á land. Já stefnt er að því að opna rómantíska aðstöðu til siglinga þar sem til að mynda verður hægt að endurnýja hjúskaparheitin inn í miðri Vaðlaheiði á árabát. Þá er hugmyndin að setja led-lýsingu í loftið sem minna á stjörnubjartan himinn sem færir gestum stemminguna úr Titanic. Þetta er skemmtileg nýung í ferðaþjónustunni og án efa eftir að slá í gegn.

Daily Mail gerði könnun á svokölluðu hollu nammi sem selt er í verslunum og markaðssett sérstaklega fyrir þá sem eru í baráttu við offituna. Niðurstaðan er sláandi og sýnir enn og aftur að með góðri markaðssetningu er hægt að ljúga öllu að neytendum. Sýróp, brúnn sykur, þurrkaðir ávextir til að mynda döðlur er ekkert annað en óhollur sykur. Það virðist vera sama hvað maður kaupir það er allt flæðandi í sykri. Sjáum til að mynda sykurmagnið í skyrdrykkjum og fleiri mjólkurvörum sem við mokum í börnin okkar. Það þarf að hafa varan á sér þegar auglýsingar um bætta heilsu veltast fyrir framan mann á netinu, sjónvarpi og útvarpi. Svo fer maður að versla og þetta situr í undirmeðvitundinni og maður kaupir þetta. Með góðri samvisku er þessu troðið í sig,hvað mig varðar þá er þetta „heilsudrasl“ ekkert sérstakt á bragðið og rannsókn Daily Mail sýnir að vilji maður brenna heilsudraslinu þarf maður að skokka í 2 klukkustundir.Það er ekki nóg að það sé logið að manni þá geta þeir ekki einu sinni haft þetta gott – ég er hættur þessu rugli, held mig bara við fylltur lakkrís reimarnar – miklu skemmtilegra að taka göngutúr eftir að hafa notið þeirra en að troða í mig einhverjum heilsuviðbjóði með sama sykurmagni.

Landbúnaðurinn kostar okkur tugi milljarða á ári samt borgum við hærra verð fyrir lambakjötið en það kostar á erlendum mörkuðum. Með samningi við ESB opnast möguleikar á örlitla samkeppni og hafa Bændasamtökin brugðist ókvæða við. Ég heyrði viðtal þar sem talað var um að sýklalyfjaónæmi væri orðið stórt vandamál í heiminum og mætti draga til kjötneyslu. Bændur hafa áhyggjur af því að hálf mengað erlent kjöt verði í boðstólunum á verði sem þeir geta ekki keppt við. Nú ef þetta kjöt er svona mikill viðbjóður þá bara kemur það í ljós. Það er neytandans að ákveða hvort hann vilji borga meira fyrir íslenskt kjöt eða ekki. Það á ekki að vera ákvörðun ríkis eða bænda að ákveða fyrir okkur. Ég að er að vísu á þeirri skoðun að það hlýtur að koma að því að við komum á markaðsbúskap í landinu. Hugsjónin er falleg, að kaupa sér jörð og vera á ríkisstyrkjum til að eiga fyrir salti í grautinn. Við þurfum að koma að landbúnaði með öðrum hætti en nú er gert og krefjast þess að greinin standi undir sér. Stærðar-rekstarhagkvæmi þar að koma þar að – ég veit að það þýðir að bændum fækkar, framleiðslan verður hagstæðari sem ætti að skila sér í lægra verði fyrir neytendur, þetta jú snýst um það.