Nýjast á Local Suðurnes

Árni Sigfússon: “Axla ábyrgð með því að segja mig úr nefndinni”

Árni Sigfússon - Mynd: Rúv

Árni Sigfússon fyrrverandi bæjarstjóri Reykjanesbæjar og formaður ráðgjafanefndar Orkusjóðs, hefur tilkynnt ráðherra að hann taki fullt mark á niðurstöðu Umboðsmanns Alþingis og muni axla ábyrgð með því að segja sig úr nefndinni. Fram kom í fréttum í dag að Árni hafi verið vanhæfur þegar sjóðurinn styrkti verkefni á vegum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands um tæpar fimm milljónir króna, en Þorsteinn Ingi Sigfússon, forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvarinnar er bróðir Árna.

Árni birti í kvöld tilkynningu á Facebook-síðu sinni þar sem hann sagðist meðal annars telja umboðsmann gegna mikilvægu hlutverki og ekki vera í hópi þeirra sem finna honum allt til foráttu.

“Í einlægni sagt þykir mér þetta mál afar leitt því ég vinn ég vinnu mína af heilindum og kostgæfni. En þarna er það mat aðila sem ég virði, að mér hafi yfirsést.” Segir Árni á Facebook-síðunni.

Tilkynning Árna í heild sinni:

Í tilefni af frétt í Kjarnanum af áliti umboðsmanns Alþingis um að það hafi ekki verið rétt stjórnsýsla að ég stæði að tillögum til Orkusjóðs um styrkveitingar til Nýsköpunarmiðstöðvar, þar sem forstjóri hennar sé bróðir minn, vil ég koma eftirfarandi á framfæri:

Ég hef aldrei verið beðinn um að gera grein fyrir þessu máli hjá umboðsmanni Alþingis.

Áhersluatriði sem styrkt skyldu 2015, samkvæmt auglýsingu, voru ekki ákveðin af okkur sem komum öll ný að ráðgjafanefndinni eftir að sú auglýsing hafði verið birt.

Umsókn Nýsköpunarmiðstöðvar, sem er ríkisstofnun, fékk hæstu einkunn óháðra sérfræðinga (reglur okkar eru þær að láta meta umsóknir utan nefndarinnar) og kom því ekkert við minni setu í ráðgjafanefndinni. Ráðgjafanefndin tekur síðan mið af þeim fjárveitingum sem til umráða eru og leggur þá fram tillögur til ráðherra.

Í nefndinni kom aldrei til umræðu á nokkurn hátt að ég viki af fundi við afgreiðslu um tillögur til styrkveitinga enda enginn ágreiningur um þær, allra síst þá sem hlaut hæstu einkunn.

Bróðir minn er forstjóri þessarar ríkisstofnunar en kemur hvergi nálægt, eða á fjárhagslegra hagsmuna að gæta, í einstaka umsóknum sem unnar eru á hennar vegum um allt land. Hann hefur aldrei rætt við mig um verkefni Nýsköpunarmiðstöðvar sem tengjast ráðgjafanefnd Orkusjóðs.

Hefði ég fengið minnstu vísbendingu um að það kynni að orka tvímælis að ég tæki þátt í tillögum til ráðuneytis um styrkveitingar, vegna þess að sótt var um m.a. í nafni umræddrar ríkisstofnunar, hefði ég að sjálfsögðu setið hjá við afgreiðslu um þetta verkefni, eða vikið af fundi.

Miðað við niðurstöðu Umboðsmanns, sem ég virði, reynast þetta vera mín mistök.

Ég tók sæti í nefndinni vegna áhuga og reynslu minnar í orkumálum á Suðurnesjum og hef unnið vel og samviskusamlega fyrir hana. Ég veit að ráðgjafanefndin hefur unnið vel og heiðarlega að störfum sínum.

Vonandi verður þetta álit til þess að aðrir aðilar sem sitja í ráðgjafanefndum og eru tengdir stjórnendum ríkistengdra stofnana, hvaða nafni sem þær nefndast, víki af fundum þegar svo ber undir. Þar með verða ákvarðanir síður vafa undirorpnar.

Í einlægni sagt þykir mér þetta mál afar leitt því ég vinn ég vinnu mína af heilindum og kostgæfni. En þarna er það mat aðila sem ég virði, að mér hafi yfirsést.
Ég mun axla ábyrgð á því að hafa ekki vikið af umræddum fundi með því að segja mig frá störfum í nefndinni. Ég þakka nefndarmönnum ánægjulegt samstarf og ráðherra fyrir traustið að tilnefna mig.
Árni Sigfússon.