Hundraðkisumálið: Vantar mat og kattasand

Forsvarskonur dýraverndunarfélagsins Villikatta hafa fjarlægt meira en fimmtíu ketti af heimili konu á Suðurnesjum á undanförnum vikum. Kettirnir voru á öllum aldri, alveg frá því að vera tveggja daga gamlir og upp í margra ára gamla ógelta fressketti og læður. Enn eru nokkri tugir katta eftir á heimilinu sem flestir eru mjög veikir og illa haldnir, þar á meðal kettlingafullar læður og nýfæddir veikir kettlingar, segir í frétt mbl.is um málið.
Dýraverndunarfélagið Villikettir sem hefur séð um að útvega köttunum mat og reynt eftir megni að finna þeim ný heimili hefur óskað eftir aðstoð almennings við að útvega dýrunum mat.
„Félagið okkar er einfaldlega uppiskroppa með fjármagn og úrræði vegna þessa máls og því getum við ekki tekið fleiri þótt við fegnar vildum.“ Sögðu forsvarskonur Villikatta.
Þá er hægt að styrkja félagið með fjárframlögum, félagið er rekið á árgjöldum félagsmanna og reiðir sig á sjálfboðaliða.
Reikningsnúmer félagsins er 0111-26-73030 og kennitala 710314-1790.