Nýjast á Local Suðurnes

Átt við reiðhjól barna í Reykjanesbæ – “Get bara ekki skilið það hvað það er mikið til af fávitum þarna úti”

Eitthvað hefur verið um að átt hafi verið við reiðhjól ungmenna í Reykjanesbæ, en slíkt mál vakti mikla athygli þegar ungur drengur stórslasaðist í Mosfellsbæ eftir að hafa dottið illa af hjóli sínu, í Mosfellsbæ hefur það verið stundað af börnum eða unglingum í hverfinu að losa um framdekk hjóla. Ljóst er að um einbeittan vilja til skemmdarverka er að ræða þar sem sérstök verkfæri þarf til að losa um stýris- eða hjólabúnað reiðhjóla.

Ingvi Þór Hákonarson greinir frá því á Facebook-síðu sinni að átt hafi verið við reiðhjól dóttur hans, á meðan hún fór í sund í Sundmiðstöð Reykjanesbæjar. Losað var um stýrið á hjóli dóttur Ingva, sem uppgötvaði verknaðinn áður en hún notaði hjólið.

“Ég get bara ekki skilið það hvað það er mikið til af fávitum þarna úti, að vera eiga við hjól annara. Til hvers, til að slasa fólk?” Spyr Ingvi, réttilega, í stöðuuppfærslu sinni sem finna má hér fyrir neðan.