Nýjast á Local Suðurnes

Bifreið brann til kaldra kola

Mynd; Facebook / skjáskot

Tilkynning barst lögreglunni á Suðurnesjum um eld í kyrrstæðri og mannlausri bifreið í nágrenni Helguvíkur í gær. Hafði bifreiðin bilað og var því skilin eftir í vegkantinum. Brunavarnir Suðurnesja slökktu eldinn en bifreiðin er gjörónýt.

Eigandi bifreiðarinnar telur að eldur hafi verið borinn að ökutækinu og biðlar, í Facebook-færslu, til vitna að atvikinu að gefa sig fram og hafa samband við lögreglu:

Ég er búinn að tala við lögreglu og það var tilkynnt um tjónið kl 02:30 í nótt [19. september innsk. blm.] bílinn var á Helguvíkurveiginum við gatnamótin við Kölku og kisilverið. Ef einhverjir voru varir við einhverjar ferðir þarna í kring í nótt má endilega hafa samband. Segir eigandinn á Facebook

Þá hafa á annan tug ökumanna verið kærðir fyrir of hraðan akstur í umdæmi lögreglunnar það sem af er vikunni. Þrír þeirra mældust á 139 km hraða þar sem hámarkshraði er 90 km á klukkustund. Einn til viðbótar ók á 118 km hraða þar sem hámarkshraði er 70 km.

Fáeinir voru teknir úr umferð vegna gruns um að þeir ækju undir áhrifum fíkniefna eða áfengis. Nokkur umferðaróhöpp urðu, en ekki var um að ræða alvarleg slys á fólki.