Nýjast á Local Suðurnes

Aukin umsvif á KEF hafa mikil áhrif á atvinnuleysistölur

Verkefnastjóri atvinnu- og viðskiptaþróunar mætti á fund menningar- og atvinnumálaráðs Reykjanesbæjar og fór yfir atvinnuleysistölur í sveitarfélaginu, en staðan hefur batnað töluvert undanfarnar vikur.

Í máli verkefnastjórans kom fram að alls 1.309 einstaklingar hafi verið án atvinnu í lok júlímánaðar eða 11,6% vinnumarkaðar.

Áhrif aukinna umsvifa á Keflavíkurflugvelli hafa haft mikil áhrif á atvinnuleysistölur. Þannig var atvinnuleysi í Reykjanesbæ 24,9 % þegar mest lét um áramót.

Dregið hefur saman með kynjum, alls voru 669 karlar og 640 konur í atvinnuleit um mánaðarmótin. Þegar litið er til atvinnuleysis eftir ríkisfangi voru 628 íslenskir ríkisborgarar atvinnulausir á meðan 681 með erlent ríkisfang voru í atvinnuleit samkvæmt Vinnumálastofnun.