Nýjast á Local Suðurnes

Landsnet semur við Thorsil um raforkuflutninga

Forstjóri Landsnets undirritaði í dag samkomulag um raforkuflutninga fyrir kísilver Thorsil ehf. í Helguvík. Gert er ráð fyrir að rekstur kísilversins hefjist í ársbyrjun 2018 og skal framkvæmdum Landsnets lokið í desember 2017. Áætlaður kostnaður við tengingu kísilvers Thorsil við meginflutningskerfi Landsnets er um 2,5 milljarðar króna.

Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, og Hákon Björnsson, framkvæmdastjóri Thorsil, undirrita samning Landsnets og Thorsil í dag.

Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, og Hákon Björnsson, framkvæmdastjóri Thorsil, undirrita samning Landsnets og Thorsil í dag.

Samkvæmt samkomulaginu skal Landsnet tryggja orkuflutninga til kísilvers Thorsil með tengingu við raforkuflutningskerfið á Reykjanesi. Það verður gert með lagningu 132 kílóvolta (kV) jarðstrengs milli Fitja og Stakks, tengivirkis Landsnets sem nú er verið að byggja í Helguvík, og stækkun tengivirkisins. Undirbúningur að hönnun verksins hefst strax hjá Landsneti og er stefnt að því að fyrstu framkvæmdir hefjist haustið 2016.

„Þessi framkvæmd eykur afhendingaröryggi til viðskiptavina okkar í Helguvík því að tveir 132 kV jarðstrengir verða á milli Stakks, afhendingarstaðar okkar þar, og tengivirkisins á Fitjum að framkvæmdum loknum. Jafnframt styttist í að framkvæmdir hefjist við Suðurnesjalínu 2, milli Hafnarfjarðar og Rauðamels, sem styrkir flutningskerfið á Reykjanesi til muna og gjörbreytir afhendingaröryggi raforku fyrir bæði íbúa og fyrirtæki á svæðinu,“ segir Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets.

Kostnaður við tengingu kísilvers Thorsil við meginflutningskerfi Landsnets og stækkun tengivirkisins Stakks í Helguvík er áætlaður um 2,5 milljarðar króna. Áætluð aflþörf kísilvers Thorsil er 87 megavött (MW) að jafnaði og verða framleidd um 54 þúsund tonn af kísilmálmi þar á ári í tveimur ofnum.