Nýjast á Local Suðurnes

Áramótatónleikar hljómsveitarinnar Valdimar í beinni á netinu

Undanfarin ár hefur myndast sú hefð að hljómsveitin Valdimar hefur haldið tónleika í Hljómahöll þann 30. desember og eru þessir tónleikar orðnir fastur liður í hátíðarhöldum margra Suðurnesjamanna. Á þessum tónleikum hefur engu verið til sparað í ljósa- og hljóðbúnaði og allt lagt í sölurnar til þess að enda árið með sem tilkomumestum hætti.

Árið 2019 náðist ekki að halda þessa tónleika vegna anna hjá sveitinni við undirbúning 10 ára afmælistónleika Valdimars í Hörpu sem áttu að fara fram fyrr á þessu ári en svo gripu örlögin í taumana og er óhætt að segja að fátt hafi gengið eftir plani árið 2020. Áramótatónleikar Valdimars í Hljómahöll eru þar engin undantekning.

Til stóð að halda allra glæsilegustu áramótatónleikana til þessa og enda 10 ára afmælisárið með sprengju. Það er ljóst að ekki verður hægt að halda hefðbundna tónleika í Hljómahöll þetta árið. Við vorum hinsvegar búnir að lofa að halda áramótatónleika í Hljómahöll í ár og loforð eru loforð. Í ljósi þess hefur verið ákveðið að bjóða upp á áramótatónleikana heima í stofu í ár.

Það voru engir áramótatónleikar í fyrra og það vita allir hvernig óskapnaðar ár beið okkar í framhaldi af því svo við tökum enga sénsa í ár og gefum allt í þessa tónleika. Það er mjög lífsnauðsynlegt að stilla sjónvarpið í botn og öskursyngja þetta ömurlega ár sem lengst út á hafsauga og vona að örlögin og næsta ár verði okkur miskunnsamt, segir í tilkynningu frá hljómsveitinni.

Tónleikunum verður streymt í beinni útsendingu á Facebook-síðum Valdimar, Hljómahallar og Víkurfrétta. Tónleikarnir hefjast kl. 20:00 og standa yfir í um eina klukkustund.

Tónleikarnir eru styrktir af Sóknaráætlun Suðurnesja.