Nýjast á Local Suðurnes

Skúta strandaði og bát rak upp í fjöru

Betur fór en á horfðist þegar að skúta strandaði við sjósetningu i Njarðvík í dag.
Skútan var í drætti þegar að dráttartóg slitnaði og tók hana í kjölfarið að reka þar til hún strandaði.

Lögreglan á Suðurnesjum greinir frá þessu og segir í tilkynningu að ekki vildi betur til en svo að dráttartógið fór í skrúfuna á bátnum sem hafði dregið skútuna. Tók bátinn því að reka upp í stórgrýtta sjóvarnargarðana.

Viðbragðsaðilar og aðrir unnu hratt á strandstað þar sem að mönnum var bæði komið frá borði og reynt var að tryggja frekara tjón.

Lögreglan naut aðstoðar slökkviliðs, björgunarsveita og Reykjaneshafna en hafnsögubáturinn Auðunn dróg bátinn frá varnargarðinum að Njarðvíkurhöfn. Þá dróg björgunarsveitin skútuna til hafnar

Engin slys urðu á fólki en áhöfnum bátanna var að vonum brugðið yfir atburðunum. Í tilkynningunni notar lögregla tækifærið og þakkar veitta aðstoð.