Nýjast á Local Suðurnes

50 milljónir í framkvæmdir við Reykjanes Geopark – “Hvergi nærri nóg”

Reykjanes Geopark hefur tekið að sér hönnun og framkvæmdir við fjölfarna ferðamannastaði á Reykjanesi. Undanfarin misseri hefur verið unnið að endurbótum og merkingum á nokkrum fáfarnari stöðum, með það að markmiði að létta álaginu af þeim fjölfarnari.

Þetta er á meðal þess sem kemur fram í grein sem Eggert Sólberg Jónsson skrifar í nýjasta tölublaði Járngerðar, fréttabréfi Grindavíkurbæjar. Í greininni kemur jafnframt fram að sveitarfélögin á Suðurnesjum hafi lagt fé í framkvæmdasjóð sem hefur verið nýtt sem mótframlag í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða og aðra samkeppnissjóði með góðum árangri.

Á þessu ári hefur Reykjanes Geopark tæpar 50 milljónir króna til framkvæmda, sem er mun meira fjármagn en svæðið hefur áður haft í slík verkefni. Það þó hvergi nærri nóg og ljóst að betur má ef duga skal næstu árin. Segir í grein Eggerts.

Þá er í greininni farið yfir helstu verkefnin sem ráðist hefur verið í eða farið verður í á næstu misserum.

Við Brimketil verða settir upp útsýnispallar auk þess sem útbúið verður bílastæði til þess að taka á móti þeim ört stækkandi hópi gesta sem vill upplifa nándina við brimið á sem öruggastan hátt. Pallarnir verða svargráir og eiga að falla vel að umhverfinu.

Gunnuhver er eitt af þeim svæðum sem nauðsynlegt er að skipuleggja með tilliti til aukins öryggis. Þá hafa gestir ítrekað gengið og keyrt út fyrir merkta göngustíga þannig að á sér á hverasvæðinu. Unnið er að forhönnun svæðisins upplifunaraðstöðuna í huga, s.s. palla og göngustíga. Þá verða bílastæðin stækkuð og aðkoma að svæðinu endurskoðuð.

Svæðið umhverfis Reykjanesvita mun taka hvað mestum breytingum á næstu árum. Í mörg ár hefur verið kallað eftir aukinni þjónustu þar og bættum aðbúnaði gesta. Í vetur mun, á vegum einkaaðila, rísa þjónustumiðstöð við Reykjanesvita. Miðstöðin kemur til með að standa fyrir neðan vitann, nokkuð frá sjónum. Bílastæðið sem er á klettabrúninni í dag verður einnig fært nær vitanum.

Að lokum er stefnt að því að stækka bílastæðið við Brú milli heimsálfa en nýlega voru öll fræðsluskilti þar endurnýjuð. Einnig verða útbúnir smærri áningarstaðir sem létta álaginu af þeim stærri. Einn slíkur er við Stampagígaröðina en þar var sett upp fræðsluskilti, borð og bekkir í sumar.

Umræddar framkvæmdir eru fjármagnaðar með styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða, og 20 milljóna króna framlagi frá HS Orku og Bláa Lóninu sem greiðist á þremur árum. Auk þess leggur framkvæmdasjóður Reykjanes Geopark til mótframlag en í hann greiða allir aðilar að geoparkinum.