Þrír nýir veitingastaðir opna á KEF

Isavia hefur tilkynnt um niðurstöður útboðs um rekstur veitingastaða. Þrír veitingastaðir munu opna í Leifsstöð síðar á árinu.
Veitingastaðurinn Bakað verður á tveimur stöðum á flugvellinum. Þar verður boðið upp á brauðmeti og pizzur – hvort tveggja bakað á staðnum – með Ágúst Einþórsson, stofnanda BakaBaka, í fararbroddi. Þá verður boðið upp á djúsa, salöt og kaffi frá Te og Kaffi.
Þá verður Loksins áfram í Leifsstöð, en nú undir nafinu Loksins Café & Bar. Staðurinn opnar á nýjum og stærri stað. „Vöruúrval verður breiðara en áður og staðurinn lokaðri sem tryggir betri hljóðvist.“ Segir í tilkynningu frá Isavia.
Alls sóttu sex aðilar útboðsgögnin þegar opnað var fyrir aðgang að þeim 11. júlí 2022. Fimm aðilar skiluðu inn hæfis- og þátttökuyfirlýsingu og uppfylltu þeir allir hæfniskröfur útboðs og var boðið að skila inn tilboðum og taka þátt í viðræðuferlinu.
„Að fá fimm aðila inn í ferlið sem voru metnir hæfir er sérstaklega ánægjulegt og sýnir að rekstur í flugstöðinni er eftirsóttur,“ segir í tilkynningu Isavia.
Á endanum skiluðu tveir aðilar inn tilboðum og var það Lagardère sem reyndist hlutskarpast, segir jafnframt í tilkynningunni.