Vilja framleiða allt að 200 tonnum af laxahrognum á Reykjanesi
Umhverfisstofnun hefur unnið tillögu að starfsleyfi fyrir Stofnfisk hf. til framleiðslu á allt að 200 tonnum af laxahrognum, lax til manneldis að Kalmanstjörn á Reykjanesi. Framleiðsla að Kalmanstjörn hófst árið 1985, en Stofnfiskur hf. eignaðist eldið árið 1991. Sjö manns starfa á vegum Stofnfisks við framleiðsluna að Kalmanstjörn.
Tillagan mun liggja frammi á bæjarskrifstofum Reykjanesbæjar, Tjarnargötu 12 Reykjanesbæ, á tímabilinu 6. febrúar til 3. apríl 2017. Á vef Umhverfisstofnunar má finna auglýsta tillögu Umhverfisstofnunar og umsóknargögn.
Umhverfisstofnun hefur ekki áform um að halda almennan kynningarfund um tillöguna á auglýsingatíma, en mun endurskoða þá ákvörðun ef eftir því verður óskað.
Athugasemdir við tillöguna skulu vera skriflegar og sendar Umhverfisstofnun. Frestur til að gera athugasemdir er til 3. apríl 2017.