Nýjast á Local Suðurnes

Fáar athugasemdir í fyrirvaralausu eftirliti Umhverfisstofnunar í verksmiðju USi

Verksmiðja Stakksbergs í Helguvík

Tvö frávik og ein athugasemd voru skráð í fyrirvaralusu eftirliti Umhverfisstofnunar í verksmiðju United Silicon í Helguvík í byrjun janúar. Stofnuninni höfðu daginn fyrir eftirlitið borist nokkrar ábendingar um reyk í kringum verksmiðjuna auk myndbands sem sýndi losun kísilryks fram hjá reykhreinsivirki.

Frávikin tvö snéru að rykuppsprettum og reyk í ofnhúsi og reykhreinsivirki verksmiðjunnar. Í skýrslu stofnunarinnar kemur fram að verklagsreglur vegna umræddra frávika séu í vinnslu innan fyrirtækisins, auk þess sem haft hefur verið samband við framleiðanda hreinsivirkis til að fá fram úrbætur. Þá kom fram við eftirlitið að settur hafi verið upp símælir og að þar með sé hægt að fylgjast með niðurstöðum rykmælis í rauntíma.

Enn virðist eitthvað vanta upp á yfirsýn og skráningar í tengslum við atvik er varða reyk frá verksmiðjunni, en tímasetningar á losun á stiflu við reykhreinsivirki voru ekki alveg á hreinu, að mati Umhverfisstofnunar.

Telur stofnunin því nauðsynlegt að bættir verðir ferlar innanhúss þar sem öll atvik stór sem smá séu skráð og rædd daglega. Þá óskar stofnunin eftir að fá upplýsingar um þau atvik sem leiða til þess að reykur eða ryk sé sýnilegt við verksmiðjuna s.s. atvik eins og það sem var til umfjöllunar á netmiðlum 3. janúar síðastliðinn, segir meðal annars í skýrslunni, sem gerð hefur verið opinber á vef stofnunarinnar.