Nýjast á Local Suðurnes

Daníel og Jón Ragnar taka við Gerðaskóla

Gengið hefur verið frá ráðningu skólastjóra og aðstoðarskólastjóra Gerðaskóla. Nýráðinn skólastjóri er Daníel Arason og nýráðinn aðstoðarskólastjóri Jón Ragnar Ástþórsson.

Daníel er fæddur og uppalinn í Neskaupstað þar sem hann bjó til tvítugs. Þá tóku við hefðbundin námsár í Reykjavík og lauk hann tónmenntakennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1995. Einnig hefur Daníel MA-gráðu í mennta- og menningarstjórnun ásamt viðbótardiplómu í opinberri stjórnsýslu frá Háskólanum á Bifröst ásamt BS-gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum á Akureyri. Daníel starfaði sem kennari í tónlistarskólum og grunnskólum á Austurlandi, meðal annars á Djúpavogi og Eskifirði, til ársins 2012 en þá tók hann við starfi skólastjóra Tónlistarskólans á Egilsstöðum. Árið 2019 hóf hann störf hjá Sveitarfélaginu Vogum og gegndi þar stöðu forstöðumanns stjórnsýslu. Daníel hefur víðtæka reynslu af kennslu og stjórnun, auk menntunar og starfsreynslu á sviði opinberrar stjórnsýslu.

Jón Ragnar þarf vart að kynna fyrir Garðbúum en hann er fæddur og uppalinn Garðmaður. Jón hefur búið lengst af í Garðinum en bjó þó til skamms tíma í Keflavík og síðar í Danmörku þar sem hann stundaði nám. Jón hefur lokið BSc og MSc í markaðsfræði og stjórnun frá Copenhagen Business School ásamt því að hafa viðbótardiplóma í menntun framhaldsskólakennara frá Háskóla Íslands. Jón hefur undanfarin ár verið kennari í Gerðaskóla en áður sinnti hann stjórnunarstöðum hjá Skólamat, sem rekstrarstjóri og sem innkaupastjóri hjá Samkaupum. Jón hefur einnig á undanförnum árum starfað sem barna- og unglingaþjálfari hjá Reyni/Víði og Keflavík og hefur setið í stjórn Knattspyrnufélagsins Víðis, meðal annars sem formaður.