Nýjast á Local Suðurnes

Flóttafólk áfram á fjárhagsaðstoð þó það fái vinnu

Ljósmynd: Reykjanesbær.is / OZZO

Kostnaður við fjárhagsaðstoð hefur aukist gríðarlega á milli ára í Reykjanesbæ. Aukningin er að mestu tilkominn vegna flóttafólks sem hefur fengið alþjóðlega vernd, í flestum tilfellum er um að ræða fólk frá Úkraínu og Venesúela. Athygli vekur að flóttafólki býðst að halda áfram að þiggja fjárhagsaðstoð eftir að það fær vinnu.

Aukningin á milli febrúar árið 2022 og svo ársins í ár vegna fjárhagsaðstoðar er rétt rúmar 30 milljónir króna, var um 24 milljónir króna í febrúar árið 2022, en rétt rúmar 55 milljónir króna í febrúar í ár. Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri, hefur sagt í svörum við fyrirspurnum í bæjarráði að meirihluti þessa kostnaðar fáist endurgreiddur frá ríkinu þar sem hann er tilkominn vegna flóttafólks sem hefur fengið alþjóðlega vernd, sem í flestum tilfellum er fólk frá Úkraínu og Venesúela.

Samkvæmt viðmiðunarreglum flóttamannnefndar skal flóttamönnum tryggð fjárhagsaðstoð í að minnsta kosti eitt ár og miðast við reglur viðkomandi sveitarfélags um fjárhagsaðstoð. Fjárhagsaðstoðin á fyrsta ári skerðist svo um 1/3 þegar flóttamaður er kominn í að minnsta kosti hálft starf og um 2/3 þegar hann er kominn í fullt starf.

Samkvæmt fundargerðum Velferðarráðs Reykjanesbæjar er fjárhagsaðstoð rúmar 150.000 krónur á fullorðna einstaklinga.

Uppfært: Eftir ábendingu frá Reykjanesbæ kom í ljós að atriði varðandi fjárhagsaðstoð til barna voru röng og hefur sá kafli verið tekinn út. Við biðjumst afsökunar á þeirri birtingu.