Nýjast á Local Suðurnes

Ráðuneytið óskar eftir því að Gerðaskóli hætti að nota hvíldarherbergi

Mennta- og menningar­mála­ráðu­neytið sendi í dag frá sér úr­skurð um notkun svo­kallaðra „hvíldar­her­bergja“ í grunn­skólum. Meðal þess sem þar kemur fram er að ráðu­neytið telur notkun hvíldar­her­bergja ó­sam­rýman­lega grunn­skóla­lögum og „óskar eftir að hætt verði án tafar að notast við slík her­bergi“.

For­saga málsins er sú að for­eldrar barns í 4. bekk í Gerða­skóla í Garði lögðu fram kæru til lög­reglu á hendur starfs­manni skólans og skólanum eftir að dóttir þeirra var lokuð inni í svo­kölluðu „hvíldar­her­bergi“ gegn hennar vilja og án vitundar for­eldranna. At­vikið átti sér stað haustið 2020 og var kært til lög­reglunnar á Suður­nesjum skömmu síðar. For­eldrarnir sendu auk þess erindi á mennta- og menningar­mála­ráðu­neytið í janúar 2021 sem var með­höndlað sem stjórn­sýslu­kæra.

Fram kemur í úr­skurði ráðu­neytisins að stúlkan hafi verið í 4. bekk og hafi verið sett í sér­úr­ræði sem fólst meðal annars í því að hún var sett í hvíldar­her­bergi sem að sögn kæranda var tóm og glugga­laus skúringa­kompa.

„Kærandi varð vitni að al­ver­legum at­vikum í skólanum þann 16. septem­ber 2020 sem leiddu til þess að lögð var fram kæra hjá lög­reglu vegna hátt­semi starfs­manns skólans. Í fram­haldi þess kveðst kærandi hafa fengið sím­tal frá að­stoðar­skóla­stjóra sem hafi greint frá að hvorki for­eldrar né barn væru vel­komin í skólann. Leit kærandi svo á að barninu hafi verið vikið úr skóla. Sveitar­fé­lagið hefur and­mælt þessari lýsingu kæranda og segir að­stoðar­skóla­stjórann hafa óskað eftir svig­rúmi í ljósi nýrra að­stæðna,“ segir í úr­skurðinum.