Nýjast á Local Suðurnes

Hælisleitendur teknir við vinnu án atvinnuleyfis – Gætu misst húsnæði og framfærslu

Fjöldi hælisleitenda býr á á Ásbrú

Lögreglan á Suðurnesjum hafði í vikunni afskipti af erlendum verkamönnum, sem voru við störf á byggingasvæði í Reykjanesbæ. Heimildir Suðurnes.net herma að um hafi verið að ræða hælisleitendur, sem búsettir eru á Ásbrú á vegum Útlendingastofnunnar.

Mennirnir voru við störf á vegum undirverktaka á byggingasvæðinu og var viðkomandi fyrirtæki sektað eftir að lögreglan á Suðurnesjum hafði heimsótt vinnustaðinn og komist að raun um að þar voru þrír erlendir menn við vinnu án þess að vera með atvinnuleyfi hér á landi, segir í tilkynningu frá lögreglu. Lögreglan vildi þó ekki staðfesta að um hælisleitendur væri að ræða, þegar eftir því var leitað.

Málið er til rannsóknar hjá lögreglunni á Suðurnesjum og voru mennirnir færðir á lögreglustöð þar sem teknar voru af þeim skýrslur. Ekki náðist í fulltrúa frá Útlendingastofnun við vinnslu fréttarinnar, en eftir því sem Suðurnes.net kemst næst er heimilt að svipta þann einstakling framfærslu, til dæmis peningagreiðslum og húsnæði sem þjónustuaðili útvegar viðkomandi, stundi hælisleitendur vinnu án atvinnuleyfis. Þá fær viðkomandi vinnuveitandi háa sekt frá lögreglu, auk þess sem Ríkisskattstjóri hefur heimildir til að áætla launagreiðslur aftur í tímann.

Þá segir lögregla í tilkynningu að áfram verði haft eftirlit með málum af þessum toga á Suðurnesjum.