Nýjast á Local Suðurnes

Sigurjón Rúnar keppir sinn fyrsta MMA bardaga í kvöld – “Skemmtilegast að klára þetta snemma”

Mynd: Skjáskot/MMA-fréttir

Fjórir bardagakappar munu taka þátt í MMA Headhunters bardagakvöldi, sem fram fer í Edinborg í Skotlandi í kvöld. Sigurjón Rúnar Vikarsson, Mjölni, er á meðal keppenda.

Sigurjón Rúnar á rætur sínar að rekja til Suðurnesja og hefur ekki langt að sækja hæfileikana þar sem faðir hans, Vikar Sigurjónsson, hefur gert það gott í boxi og unnið til fjölda verðlauna. Bardaginn sem Sigurjón tekur þátt í í kvöld er hans fyrsti á erlendri grundu.

Auk Sigurjóns munu þeir Bjartur Guðlaugsson, Bjarki Eyþórsson og Björn Lúkas Haraldsson keppa í Skotlandi. Sigurjón er ekki í nokkrum vafa um hvernig kvöldið mun verða.

„Mjölnir fer heim með fjögur ‘W’ frá þessu kvöldi og ég mun eiga eitt af þeim. Það væri alltaf skemmtilegast að klára bardagann snemma en ég ætla ekkert að hugsa út í það. Gríp bara tækifærið þegar það kemur.“ Sagði Sigurjón Rúnar í samtali við MMA-fréttir.

Áður en Sigurjón fór í MMA hafði hann æft box með hléum frá 2010 og varð Íslandsmeistari í boxi árið 2011.

Ekki verða beinar útsendingar frá bardagakvöldinu, en áhugasamir geta fylgst með strákunum á Snapchati MMA Frétta og Snapchati Mjölnis.