Nýjast á Local Suðurnes

Kynntu verkefni félagsþjónustu fyrir barnaverndarnefnd

Starfsfólk félagsþjónustusviðs Reykjanesbæjar kynnti nokkur helstu verkefni sviðsins fyrir fulltrúum Barnaverndarnefndar sveitarfélagsins á síðasta fundi nefndarinnar sem haldin var í lok nóvember. Flest verkefnin eru forvarnarverkefni sem snúa að börnum og heimilisofbeldi.

Félagsþjónusta Reykjanesbæjar hefur náð eftirtektarverðum árangri í forvarnar- og heimilisofbeldismálum og hefur samstarfsverkefni Félagsþjónustunnar og Lögreglunnar á Suðurnesjum,  Að halda glugganum opnumverið tekið upp í fjölmörgum sveitarfélögum, hérlendis sem erlendis.

Á meðal þeirra verkefna sem kynnt voru nefndinni á fundinum eru samstarfsverkefni starfsmanna barnaverndar og forvarnarfulltrúa lögreglunnar á Suðurnesjum er varðar unglinga sem sýna af sér áhættuhegðun og teymisvinna barnaverndar og mæðra-/ungbarnaverndar. Þá var Trappan, viðtalsmeðferð sem barnavernd Reykjanesbæjar býður börnum sem verða vitni að heimilisofbeldi upp á, kynnt fyrir nefndinni.

Í fundargerð nefndarinnar kemur fram að nefndarmenn styðji framhald verkefnanna og telji þau mikilvæga viðbót við aðra þjónustu sem veitt er af sveitarfélaginu.