Nýjast á Local Suðurnes

Keflavík og Njarðvík munu missa frá sér gott fólk og dragast aftur úr samkeppnisliðum

Stefnumótunarvinna Reykjanesbæjar vegna uppbyggingar íþróttamannvirkja og íþróttasvæða Reykjanesbæjar er í fullum gangi og hefur ráðgjafafyrirtækið Capacent unnið að stefnumótuninni í samvinnu við íþróttafélögin Keflavík og Njarðvík auk sveitarfélagsins.

Fram kom á fundi með ráðgjafa Capacent, sem haldinn var í ágúst, að með áframhaldandi aðstöðuleysi muni íþróttafélögin missa frá sér gott fólk. Þau séu nú þegar að dragast aftur úr samkeppnisliðum og geta ekki verið í fremstu röð. Forsvarsmenn félaganna skora þannig á sveitarfélagið að spýta í lófana.

Mismunandi sjónarmið hafa komið upp við stefnumótunarvinnuna og virðast þarfir íþróttafélaganna vera mismunandi. Þannig eru forsvarsmenn Keflavíkur nokkuð ánægðir með stöðu mála á meðan forsvarsmenn Njarðvíkur telja félagið þurfa mikla uppbyggingu.

Reykjanesbær leggur áherslu á samnýtingu íþróttamannvirkja og að byggt verði upp öflugt íþróttasvæði við Afreksbraut. Það hugnast Njarðvíkingum, sem þegar hafa aðstöðu knattspyrnudeildar á svæðinu, en ekki Keflvíkingum sem vilja halda aðstöðunni við Sunnubraut.

Þá höfðu íþróttafélögin ýmislegt við skýrslu Capacent að athuga, meðal annars ýmsar greiningar, eins og greiningu til framtíðar með tilliti til fólksfjölda og uppbyggingar. Einnig töldu forsvarsmenn íþróttafélaganna að kostnaðaráætlanir væru stórlega vanreiknaðar og þá sérstaklega kostnaður við fyrirhugaðann gervigrasvöll.

Við vinnslu skýrslu Capacent voru íþróttafélögin beðin um að móta framtíðarsýn sína af Reykjanesbæ sem var gert, en ef márka má fundargerð eftir fund með ráðgjafa Capacent hafa íþróttafélögin ekki enn fengið nein viðbrögð frá Reykjanesbæ um hvað þeim finnist um framtíðarsýn félaganna og hver afstaða sveitarfélagsins er gagnvart þeim. Forsvarsmönnum íþróttafélaganna “líður eins og sveitarfélagið sé þriðja liðið, þegar þau í raun eru öll í þessu saman.” Segir orðrétt í fundargerðinni.

Hér fyrir neðan má sjá minnisblað um uppbygginguna og fundargerð sem skýrir sjónarmið forsvarsmanna íþróttafélaganna:

Minnisblað um uppbyggingu íþróttamannvirkja í Reykjanesbæ.

Fundur UMFN og Keflavíkur með ráðgjafa Capacent.