Nýjast á Local Suðurnes

“Lúxusvandamál” í Njarðvík – Yfir 200 æfa körfubolta í yngri flokkum UMFN

Körfuknattleiksdeild Njarðvíkur skrifaði í desember undir samninga við alla þjálfara yngri flokka UMFN. Iðkendafjöldi nú kominn yfir 200 í yngri flokkum deildarinnar sem er nýtt met hjá félaginu.

“Þennan frábæra árangur má þakka óeigingjörnu starfi þeirra einstaklinga sem staðið hafa vaktina árum saman í unglingaráði körfuknattleiksdeildarinnar. Starf þeirra allra er einstakt að því leyti, að kjarninn í þessum hópi hefur verið að sjálfboðaliðastörfum fyrir deildina í áraraðir og aldrei klikkað á vaktinni. Algjörlega ómetanleg vinna fyrir okkur Njarðvíkinga.” Segir í tilkynningu frá félaginu.

Vert að hafa í huga að starf unglingaráðs býr ekki eingöngu til ákveðið forvarnargildi og sterkan félagslegan grunn til iðkenda yngri flokkanna. Einnig skilar starfið reglulega nýjum leikmönnum sem verða með þeim bestu á landinu í bæði karla- og kvennadeildum.

“Fjöldi frambærilegra leikmanna er það mikill sem sést á fjölda leikmanna sem Njarðvik hefur alið upp en spila nú með öðrum liðum. Í raun gætum við átt 2 lið í efstu deild. Þetta er hægt að kalla”lúxusvandamál”.
Eitt er á kristaltæru; með öflugu starfi unglingaráðs KKD UMFN tryggjum við áfram veru okkar með þeim bestu á landsvísu. Þeirra vinna er grunnurinn að öllu okkar starfi.” Segir einnig í tilkynningunni