Nýjast á Local Suðurnes

Til mikils að vinna á Heimsleikunum í crossfit

Það er óhætt að segja að það sé til mikils að vinna í keppni þeirra bestu í crossfitinu því fyrir utan heiðurinn sem fylgir því að sigra þessa keppni er verðlaunaféð á Heimsleikunum að þessu sinni yfir 250 milljónir króna í heildina og sigurvegarinn í þeim flokki sem við Suðurnesjamenn fylgjumst með af mikilli athygli, einstaklingskeppni kvenna, fær um 40 milljónir króna í sinn hlut.

Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir er sem stendur í fyrsta sæti í kvennaflokki á leikunum þegar keppnin er hálfnuð en hún hefur vakið gríðarlega athygli í crossfitheiminum fyrir frábæran árangur á skömmum tíma, hún byrjaði að æfa íþróttina fyrir um þremur árum og hefur undanfarið ár hreinlega hlaupið á milli verðlaunapalla í þeim keppnum sem hún hefur tekið þátt – Nú síðast á Evrópumótinu sem hún sigraði í byrjun júni.