Nýjast á Local Suðurnes

Njarðvík tapaði á Dalvík – Tryggvi með mark í fyrsta leik

Vandræði Njarðvíkinga í annari deildinni í knattspyrnu aukast enn en liðið tapaði gegn Dalvík/Reyni í fjörugum leik á Dalvíkurvelli í dag, 3-2. Tryggvi Guðmundsson var ekki lengi að þenja netmöskva í Njarðvíkurbúningnum en hann skoraði fyrsta mark leiksins úr vítaspyrnu á 8. mínútu.

Dalvíkingar jöfnuðu leikinn á 33. mínútu en settu svo knöttinn í eigið mark í upphafi síðari hálfleiks, eftir að hafa misst mann af velli í lok þess fyrri, staðan 1-2 á 46. mínútu. Dalvík/Reynir náðu svo að jafna leikinn á 57. mínútu.

Njarðvíkingar misstu svo mann af velli á 88. mínútu þegar Brynjar Freyr var rekinn útaf, sigurmark Dalvíkinga kom svo á lokamínútunni og tap staðreynd hjá annars sprækum Njarðvíkingum sem sitja enn í næst neðsta sæti deildarinnar.