Nýjast á Local Suðurnes

Grindavík jafnaði í uppbótartíma – Enn í öðru sæti deildarinnar

Grindvíkingar og Huginn skildu jöfn á Grindavíkurvelli í gærkvöldi. Grindvíkingar voru sterkari aðilinn í leiknum, sem frestaðist um rúma klukkustund vegna bilunar í fluggkerfi á Reykjavíkurflugvelli.

Björn Berg Bryde skoraði fyrsta mark leiksins fyrir Grindavík eftir um stundarfjórðungs leik en gestirnir frá Seyðisfirði voru fljótir að jafna leikinn, eftir umdeilda aukaspyrnu á 25. mínútu. Þeir komust svo yfir á 32. mínútu, með glæsilegu marki sem Kristijan Jajalo átti ekki möguleika á að verja.

Grindvíkingar sóttu án afláts í síðari hálfleik og áttu fjölda færa. Stórsóknin skilaði þó ekki marki fyrr en á 3. mínútu uppbótartíma þegar Alexander Veigar Þórarinsson skallaði knöttinn í netið og jafnaði leikinn.

Grindavík er í öðru sæti deildarinnar eftir jafnteflið, fjórum stigum á eftir toppliði KA.