Nýjast á Local Suðurnes

Fljótlegra að redda dópi en að fá pítsu senda – “Við erum að gera eitthvað rangt”

Þessi auglýsing birtist á Facebook á síðasta ári

Það er mjög einfalt að verða sér úti um fíkniefni í dag, segir Sigvaldi Arnar Lárusson, varðstjóri hjá lögreglunni á Suðurnesjum. Hann segir greitt aðgengi að lyfseðilsskyldum lyfjum og fíkniefnum.

„Aðgengi að fíkniefnum í dag, það er mjög einfalt að verða sér úti um fíkniefni í dag. Það var oft talað um í gamla daga að fíkniefni væru komin til þín á undan pítsunni og ég verð því miður að taka undir það. Það er bara þannig,“ segir Sigvaldi Arnar í viðtali við RÚV.

Auðvelt er að verða sér úti um eiturlyf á samfélagsmiðlunum, á Facebook er að finna fjölda sölusíðna þar sem boðin eru til sölu alls kyns lyfseðilsskyld lyf, rítalín, morfín, sterk lyf og róandi auk alls kyns eiturlyfja.

Sigvaldi sem hefur starfað í lögreglunni í 17 ár, segir að meginþorri þeirra lyfja sem séu á markaðnum komi úr apótekum hérlendis.

Hann segir nauðsynlegt að auka forvarnir og þær þurfi að byrja fyrr. Hert eftirlit virðist litlu hafa skilað.

 „Við erum að gera eitthvað rangt. Sem foreldri og lögreglumaður, þá finnst mér vanta forvarnir, þær þurfa byrja miklu. Við þurfum að fara gera eitthvað, það er alveg klárt. Annars endar þetta bara illa held ég.“