Nýjast á Local Suðurnes

Sorp ekki flokkað tímabundið

Einhver hluti endurvinnsluefnis sem berst Kölku frá heimilum verður brennt en ekki flokkað vegna Covid 19. Þessi ráðstöfun er gerð þar sem að starfsfólk þarf að vinna við flokkun með höndum sem er ógerlegt við þær aðstæður sem nú eru uppi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kölku, en þar segir að þegar lýst hefur verið yfir neyðarstigi höfum við í Kölku gripið til ýmissa ráðstafana til að starfsemin mæti kröfum þeirra verklagsreglna sem stofnunin hefur gefið út.

Verklagsreglurnar fela m.a. í sér aukna almenna aðgát, aukin þrif og notkun persónuhlífa.

Við í Kölku höfum þegar byrjað að brenna hluta þess endurvinnsluefnis, m.a. úr grænum tunnum íbúa á Suðurnesjum, sem berst til okkar.

Efnið úr grænu tunnunni er alla jafna unnið áfram hjá samstarfsaðilum Kölku og er handfjatlað af starfsfólki. Við höfum því ákveðið að hluti þessa efnis skuli fara í brennslu. Eins og fram hefur komið í fréttum virðist COVID-19 veiran geta lifað býsna lengi á hörðu yfirborði eins og t.d. plasti og pappa. Það efni sem áfram fer til endurvinnslu er geymt í tvær vikur áður en það er meðhöndlað og fyllstu varúðar er gætt við vinnu við það.

Við viljum beina þeim tilmælum til fólks að hætta ekki að flokka í sínar tunnur þótt þessi staða sé uppi. Við viljum halda tunnunum hreinum og eiga þann möguleika að geyma eins mikið efni og kostur er, til vinnslu síðar. Hvað varðar það efni sem verður brennt þá er mikill kostur að hafa það sem mest aðskilið frá öðru sorpi svo hægt sé að skammta það inn í brennsluna í hæfilegum skömmtum. Það snýst bæði um stjórnun hitastigs í ofni og eftirbrennslu og að halda óæskilegum efnum í útblæstri í innan marka.

Þá viljum við einnig ítreka að þessi ráðstöfun er tímabundin og um leið og aðstæður leyfa verður þessari brennslu hætt. Stefnan er að allt endurvinnanlegt efni fari í endurvinnslu og henni verður fylgt áfram. Þessar tímabundnu ráðstafanir stafa eingöngu af því ástandi sem er uppi vegna COVID-19 og er, eins og margsinnis hefur komið fram, fordæmalaust.