Nýjast á Local Suðurnes

Kvartað undan sviða í öndunarfærum – Engar tilkynningar borist sóttvarnalækni

Á fjórða tug manna segjast hafa fundið fyrir einkennum eftir að ljósbogaofn kísilmalmverksmiðju United Silicon var ræstur á mánudag, en við ræsingu ofnsins var vindátt yfir Reykjanesbæ. Flestir kvarta undan sviða í hálsi og nefi, auk þess sem kvartað er undan þurrki í andliti. Engar kvartanir hafa þó borist sóttvarnalækni vegna málsins.

Þetta kemur fram í umræðum á Facebook-síðu Andstæðinga stóriðju í Helguvík, en þar greina meðal annars nokkrir aðilar, sem ekki búa í Reykjanesbæ, frá því að þeir finni fyrir ofangreindum einkennum þegar þeir heimsækja bæinn.

Þá hafa samtökin boðað til íbúafundar vegna verksmiðjunnar í Helguvík og verður fundurinn haldinn í Stapa þann 24. ágúst klukkan 18.

Í svari við fyrirspurn Suðurnes.net sagði starfandi sóttvarnalæknir, Haraldur Briem, að engar tilkynningar hafi borist vegna þessa til embættisins, eftir ræsingu ofnsins síðastliðinn mánudag, en að hann hafi haft fréttir af því að einhverjar kvartanir vegna óþæginda hafi borist Umhverfisstofnun.

“Ég get staðfest að engar tilkynningar hafa borist sóttvarnalækni frá læknum um einkenni eftir að ljósbogaofn United Silicon var ræstur sl. mánudag.

Skilst þó að Umhverfisstofnun hafi borist einhverja kvartanir um óþægindi í tengslum við ræsingu ofnsins.” Sagði Haraldur.