Nýjast á Local Suðurnes

Geyma kol undir berum himni – “Líður eins og við séum komin 100 ár aftur í tímann”

Kol sem notuð eru við brennslu í verksmiðju United Silicon í Helguvík eru geymd undir berum himni á lóð verksmiðjunnar, eftir að lagerhúsnæði við verksmiðjuna skemmdist í slæmu veðri síðastliðið haust.

Þetta kemur fram á lokaðri Facebook-síðu íbúa í Reykjanesbæ, en þar hafa myndast töluverðar umræður um fráganginn og kolaryk sem fólk segist þurfa að þurrka af húsgögnum og bílum sínum nær daglega. Einn segir meðal annars að pallurinn sé þakinn af þessu ryki og potturinn fullur. Aðrir hafa sett inn myndir af rykugum gluggum og hurðum.

Þá segir einn þáttakandi í umræðunum að myndirnar sem birtar eru í þræðinum séu sláandi

“Þessar myndir eru sláandi og mér líður eins og við séum komin 100 ár aftur í tímann. Veit ekki hvað ég get sagt meira núna.” Segir íbúi í Reykjanesbæ.

Í umræðunum er einnig bent á að kolin séu blaut og því ætti ekki mikið ryk að berast frá þeim eins og staðan sé núna.

Ekki er starfsemi í verksmiðjunni um þessar mundir að öðru leyti en því að unnið er að viðgerðum á ofni verksmiðjunnar.