Nýjast á Local Suðurnes

Tugir komust í gegnum landamæraeftirlit á fölsuðum skilríkjum

Brestir komu fram í getu flugstöðvardeildar Lögreglustjórans á Suðurnesjum til að sinna sínum hlutverkum við farþegalistagreiningu á síðasta ári, með þeim afleiðingum að tæplega þrjátíu einstaklingum tókst að fara um landamærin áleiðis til Kanada og Bretlands með því að framvísa fölsuðum skilríkjum.

Í ársskýrslu Lögreglustjórans á Suðurnesjum segir að varað hafi verið við þessari þróun í kjölfar aukins álags á starfsfólk deildarinnar. Deildin hefur þurft að mæta álaginu með því að vísa frá sér verkefnum sem áður var sinnt og leggja tiltekin önnur verkefni af sem haft hefur áþreifanlegar afleiðingar.

Ein gleggsta birtingarmynd afleiðinga þróunarinnar er sú staðreynd að aldrei hefur fleiri einstaklingum tekist að fara um landamærin í FLE á fölsuðum skilríkjum en árið 2016. Fullyrða má að ástæðuna megi rekja beint til hins aukna álags og hlutfallslega fækkandi starfsmanna. Til margra ára reyndi flugstöðvardeild að sinna farþegalistagreiningu eftir mætti sem skilaði miklum árangri í að sporna gegn óreglulegum fólksflutningum og ávann deildinni gott orðspor. Með ári hverju hefur hins vegar verið að fjara undan getu deildarinnar til að sinna þessu verkefni og árið 2016 hrundi getan alveg með þeim afleiðingum sem við blasa. Segir í ársskýrslunni sem birt var á dögunum.