Nýjast á Local Suðurnes

Mikil fækkun gesta í Duus Safnhús eftir að innheimta aðgangseyris hófst

Menningarfulltrúi Reykjanesbæjar lagði fram ársskýrslu Duus Safnhúsa fyrir árið 2016 á fundi Menningarráðs sem haldinn var í gær. Í ársskýrslunni kemur fram að gestum sem heimsækja söfnin fækkaði töluvert á milli ára, eftir að byrjað var að innheimta aðgangseyri að söfnunum.

Reksturinn var með svipuðu sniði og áður nema að tekinn hafði verið upp aðgangseyrir í upphafi ársins. Gestum fækkaði um 38 %, úr 40.397 í 24.839 en þó var reynt að koma til móts við bæjarbúa með ókeypis aðgangi annað slagið t.d. á Ljósanótt og einnig með sölu menningarkorta.

Fjöldi viðburða var haldinn í húsinu, tónleikar og fræðslufundir og 19 nýjar sýningar voru opnaðar á árinu. Upplýsingamiðstöð ferðamála er rekin í Duus Safnahúsum með styrk frá Markaðsstofu Reykjaness. Ráðið þakkar greinargóða skýrslu en leggur til að aðgangseyrir verði endurskoðaður.