Nýjast á Local Suðurnes

Keilir kennir tölvuleikjagerð – CCP hefur lýst stuðningi við námsbrautina

Keilir vinnur að nýrri námsbraut í gerð tölvuleikja en samkvæmt leyfi frá menntamálaráðuneytinu stefnir Keilir á að bjóða upp á nám á framhaldsskólastigi til stúdentsprófs fyrir nemendur á aldrinum 16 – 25 ára. Teknir verða inn allt að 60 nýnemar í nám til stúdentsprófs haustið 2017 háð því að ráðuneytið samþykki áætlanir skólans.

Með nýju námsbrautinni verða jafnframt innleiddir nýir kennsluhættir til stúdentsprófs þar sem stuðst verður við reynslu Keilis af vendinámi, en þar er hefðbundinni kennslu snúið við, fyrirlestrar og kynningar kennara eru vistaðar á netinu og nemendur geta horft og hlustað á kynningarnar eins oft og þeim hentar. Þá munu sjálfstæð vinnubrögð nemenda skipa háan sess í náminu.

Námið byggir á nánum tengslum við atvinnulífið og hafa Samtök leikjagerðarfyrirtækja á Íslandi, hópur sem er starfræktur innan Samtaka iðnaðarins, og CCP lýst stuðningi við hina námsbrautina, auk þess sem forstjóri CCP mun sitja í fagráði brautarinnar.

Keilir hefur undirritað samstarfssamning við danska leikjagarðinn Game Park Danmark, en þar er meðal annars starfræktur eini menntaskólinn í Danmörku þar sem boðið er upp á leikjagerð bæði sem valgrein og aðaláherslu – Game College. Í skólanum er einnig boðið upp á nám á háskólastigi fyrir þá sem vilja í samstarf við háskólann í Árósum og þar er einnig boðið upp á aðstöðu fyrir frumkvöðla á sviði leikjagerðar, en töluvert er um einyrkja og smærri aðila á þessu sviði.

Keilir hyggst í framhaldinu koma sambærilegri aðstöðu á Ásbrú þar sem boðið verður upp á stúdentspróf með áherslu á leikjagerð og diplómanám eða BS-nám í leikjagerð, í samstarfi við innlenda og erlenda háskóla. Þá er þegar til staðar á Ásbrú aðstaða fyrir frumkvöðla í tæknismiðju og frumkvöðlasetrinu Eldey.