Nýjast á Local Suðurnes

BGB Gesthús færir út kvíarnar – Festu kaup á hóteli í Vestmannaeyjum

Eigendur BGB Gesthús í Reykjanesbæ, Bjarni Geir Bjarnason og fjölskylda, hafa fest kaup á rótgrónu hóteli í Vestmannaeyjum, hótelið sem ber nafnið Hótel Eyjar, hefur verið í rekstri í um 20 ár.

Bjarni Geir og fjölskylda tóku við rekstri BGB Gesthúss, sem staðsett er í hjarta Reykjanesbæjar, miðsvæðis við Hafnargötuna, fyrir rétt tæpum tveimur árum síðan og hefur reksturinn gengið vel, enda stutt í flug og aðra þá þjónustu sem ferðamenn kunna að þarfnast.

“Reksturinn í hjarta Reykjanesbæjar hefur gengið framar vonum, enda erum við vel staðsett, aðeins tæpum fimm kílómetrum frá alþjóðaflugvelli, það gerist vart betra.” Segir Bjarni Geir í spjalli við Suðurnes.net “Við sjáum svo aukin tækifæri í túristabransanum í Vestmannaeyjum á næstu misserum, enda sífellt fleirri sem sækja Eyjar heim, með batnandi samgöngum.”

Að sögn Bjarna Geirs mun reksturinn í Vestmannaeyjum verða með sama sniði og verið hefur, “…enda erum við að taka við góðu búi og vel reknu hóteli,” segir Bjarni Geir, en hann hefur töluverða reynslu af ferðalögum til Vestmannaeyja, þar sem hann hefur staðið fyrir skipulögðum ferðum með hópa frá Suðurnesjum á þjóðhátíð í fjölda ára.

Hægt er að bóka gistinguna í Eyjum með því að smella hér.