Nýjast á Local Suðurnes

Greiddi 200 milljónir króna fyrir Hótel Berg – Miklir möguleikar á stækkun

Hótel Berg við smábátahöfnina

Eins og Local Suðurnes greindi frá í gær hefur Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrum Kaupþingsstjóri fest kaup á Hótel Bergi í Reykjanesbæ ásamt eiginkonu sinni, Önnu Lísu Sigurjónsdóttur og móður sinni Grétu Sigurðardóttur í gegnum fyrirtækið Gistiver ehf..

Gréta Sigurðardóttir, einn eigenda Gistivers ehf. staðfesti í samtali við Local Suðurnes að fyrirtækið væri kaupandi að Hótel Bergi, hún sagði kaupverðið vera trúnaðarmál en samkvæmt frétt sem birtist í prentútgáfu DV í dag varðandi kaup Gistivers á Hótel Bergi er kaupverðið talið vera um 200 milljónir króna.

hotel-berg2

Íbúar í grennd við hótelið telja að útsýni skerðist verði stækkun að veruleika

Mikilir möguleikar á stækkun

Gréta tók fram í samtali við Local Suðurnes að markmiðið með kaupunum væri að byggja  á góðu starfi fyrri eigenda og efla reksturinn á komandi árum. Möguleikarnir á að efla starfsemina verða að teljast góðir því Hótel Berg lagði fram umsókn til Umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar um skipulagsbreytingu á deiliskipulagi Grófar og Bergs í maí síðastliðnum. Breytingin fellst í sameiningu lóðanna Bakkavegs 17 og 19 og stækkun hótelsins inn á lóð nr. 19.

Nokkrar athugasemdir bárust við tillöguna vegna aukinnar umferðar, aukins ónæðis og áframhaldandi rýrnun fasteignaverðs í götunni, auk þess sem íbúar í grennd við hótelið telja að útsýni skerðist.  Samkvæmt heimildum Local Suðurnes er málið enn í vinnsu hjá Umhverfis- og skipulagsráði. Verði þessi tillaga hinsvegar samþykkt má búast við að hægt verði að tvöfalda stærð hótelsins á næstu misserum.