Fyrrum forstjóri Kaupþings fjárfestir í hótelrekstri í Reykjanesbæ

Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrum Kaupþingsstjóri hefur fest kaup á Hótel Bergi í Reykjanesbæ ásamt eiginkonu sinni, Önnu Lísu Sigurjónsdóttur og móður sinni Grétu Sigurðardóttur í gegnum fyrirtækið Gistiver ehf.. Hreiðar Már situr sem kunnugt er á Kvíabryggju um þessar mundir eftir að hafa verið dæmdur í málum tengdum Kaupþingsbanka.
Auglýsing: Viltu prófa að gista á einu af hótelum Hreiðars Más og fjölskyldu?
Hreiðar Már hefur þrátt fyrir vistina á Kvíabryggju eytt undanförnum árum í að byggja upp hótelrekstur í Stykkishólmi ásamt móður sinni og eiginkonu auk þess sem fjölskyldan bætti Hótel Búðum við í hótelsafnið ekki fyrir svo löngu síðan. Þau reka einnig þvottahúsið Sængurver í Stykkishólmi – Og nú hefur Hótel Berg bæst í safnið.
Gréta Sigurðardóttir, einn eigenda Gistivers ehf staðfesti í samtali við Local Suðurnes að fyrirtækið væri kaupandi að Hótel Bergi og að “markmiðið væri að byggja á góðu starfi fyrri eigenda og efla reksturinn á komandi árum.”
Hótel Berg er eitt glæsilegasta gistihús Reykjanesbæjar og er staðsett við smábátahöfnina í Keflavík.