Nýjast á Local Suðurnes

Stækka Hótel Berg – “Markmiðið að gera gott hótel enn betra”

Hótel Berg við smábátahöfnina

Framkvæmdir við stækkun Hótel Bergs, sem staðsett er við smábátahöfnina í Gróf, munu hefjast um miðjan mánuðinn, ef áætlanir ganga eftir. Í lok síðasta árs urðu eigendaskipti á hótelinu þegar Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrum forstjóri Kaupþingsbanka festi kaup á Hótelinu ásamt eiginkonu sinni, Önnu Lísu Sigurjónsdóttur og móður sinni Grétu Sigurðardóttur í gegnum fyrirtækið Gistiver ehf.

Við kaupin á hótel Bergi á síðasta ári sagði Gréta Sigurðardóttir, í samtali við Suðurnes.net, að til stæði að efla starfsemina.

“Markmiðið með kaupunum er að byggja  á góðu starfi fyrri eigenda og efla reksturinn á komandi árum.” Sagði Gréta í september síðastliðnum.

Stækka um 15 herbergi – Allir verktakar af Suðurnesjum

Hótelið mun verða stækkað um 15 herbergi og segir Gréta í samtali við Suðurnes.net að stefnt sé að því að allir verktakar sem koma muni að framkvæmdum við stækkunina komi af Suðurnesjum, Verkfræðistofa Suðurnesja sinnir verkfræðihluta framkvæmdanna auk þess að hafa yfirumsjón með verkinu fyrir Gistiver ehf.

“Við stefnum að því að ráða fyrirtæki og iðnaðarmenn á Suðurnesjunum til að sjá um framkvæmdir fyrir okkur.  Markmið okkar er að gera gott hótel ennþá betra og bæta enn frekar upplifun gesta okkar en hótelið verður stækkað um 15 herbergi.” Sagði Gréta.

Hótelið mun stækka um 15 herbergi - Eigendur vonast til að verktakar og iðnaðarmenn komi af Suðurnesjum

Hótelið mun stækka um 15 herbergi – Eigendur vonast til að verktakar og iðnaðarmenn komi af Suðurnesjum

Vildu meiri stækkun en skipulag gerði ráð fyrir

Eigendur hótels Bergs lögðu fram fyrirspurnir til Umhvefis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar í október síðastliðnum vegna misræmis á milli nýtingarhlutfalls aðal- og deiliskipulags.

Fyrirspurnirnar snérust um möguleika á að hækka nýtingarhlutfall lóðarinnar við Bergveg 17 svo byggja mætti tveggja hæða byggingu auk riss á lóðinni, en samkvæmt gildandi skipulagi er leyfilegt að byggja eina hæð auk riss. Þá höfðu fyrri eigendur lagt fram beiðni um breytingar á skipulagi svæðisins með það fyrir augum að fá að byggja tveggja hæða byggingu auk riss.

Nokkrar athugasemdir bárust við tillögu fyrri eigenda frá íbúm vegna aukinnar umferðar, aukins ónæðis og áframhaldandi rýrnun fasteignaverðs í götunni, auk þess sem íbúar í grennd við hótelið telja að útsýni skerðist.

Í svari Umhvefis- og skipulagsráðs við fyrirspurn nýju eigendanna kom fram að ekki stæði til að gera breytingar á skipulagi á þessu svæði þar sem nýtingarhlutfall yrði fullnýtt með byggingu á einni hæð og risi.

Reka hótel og þvottahús á landsbyggðinni

Fjölskyldan sem stendur að Gistiveri ehf. hefur byggt upp hótelrekstur á landsbyggðinni undanfarin ár. Fyrirtækið rekur Hótel Egilesen í Stykkishólmi, en endurbætur við það hótel þykja hafa tekist einstaklega vel. Auk þess bætti fjölskyldan Hótel Búðum við í hótelsafnið ekki fyrir svo löngu síðan. Þau reka einnig þvottahúsið Sængurver í Stykkishólmi.

hotel egils

Hótel Egilesen – Endurbætur á hótelinu þykja hafa tekist einstaklega vel