Nýjast á Local Suðurnes

Skálað í tilefni opnunar Arionbanka – 60 manns sinna 500.000 ferðalöngum

Sunnudaginn 8. maí síðastliðinn lauk framkvæmdum í tengslum við opnun Arion banka á Keflavíkurflugvelli með formlegum hætti. Bankinn er með starfsemi á þremur stöðum innan flugstöðvarinnar, það er í brottfararsal og komusal, ásamt afgreiðslu fyrir endurgreiðslu virðisaukaskatts, sem einnig er staðsett í komusal. Að auki eru 13 hraðbankar víða um flugstöðvarbygginguna sem farþegar geta nýtt á ferð sinni til eða frá landinu.

Arion banki mun veita þjónustu allan sólarhringinn á háannatíma ársins, það er yfir sumartímann og fram í október, og munu þá um 60 starfsmenn sinna þjónustunni. Meðal þeirra er fyrrum starfsfólk Landsbankans sem sinnt hefur bankaþjónustu á Keflavíkurflugvelli undanfarin ár, en Arion banki réð til starfa alla úr þeim hópi sem sóttust eftir því að sinna áfram þjónustu í flugstöðinni.

Farþegaspá fyrir árið 2016 áætlar að 6,7 milljónir farþega muni fara um Keflavíkurflugvöll og ef hún gengur eftir er það fjölgun um 37% milli ára. Gera má ráð fyrir því að hátt í hálf milljón farþega á ári muni nýta sér þá þjónustu sem Arion banki býður á Keflavíkurflugvelli.

Í tilefni opnunarinnar á sunnudaginn var skálað við útibúið í brottfararsalnum. Aðalheiður Guðgeirsdóttir, svæðisstjóri á Keflavíkurflugvelli, klippti á borða ásamt Höskuldi H. Ólafssyni, bankastjóra Arion banka, og Hlyni Sigurðssyni, framkvæmdastjóra Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar.

Kef_opnun_arion03

Kef_opnun_arion02