Stærstu sjávarútvegsfyrirtæki landsins byggja Heilsuvöruhús á Reykjanesi

HB Grandi hf, Samherji hf., Vísir hf., Þorbjörn hf. og Codland ehf. hafa undirritað viljayfirlýsingu um að reisa Heilsuvöruhús á Reykjanesi þar sem þróun og framleiðsla á vörum unnum úr hliðarafurðum sjávarútvegs mun fara fram.
Heildarkostnaður verkefnisins er áætlaður um einn milljarður íslenskra króna, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá HB Granda um málið.
“Við höfum lokið frumhönnun Heilsuvöruhúss og allir helstu kostnaðarþættir liggja fyrir, svo sem tækjakaup og uppsetning. Þarna sameina fjögur af stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum krafta sína, fyrirtæki sem hafa mikla reynslu af fiskveiðum og ráða yfir skipaflota og aflaheimildum til að afla Heilsuvöruhúsi grunnhráefnis og um leið auka nýtingu og verðmætasköpun hliðarafurða í sjávarútvegi,“ segir Tómas Þór Eiríksson, framkvæmdastjóri.
Ljóst er að þeir aðilar sem koma saman í þessu verkefni geta með þessu nýsköpunarverkefni skapað mikil verðmæti úr hliðarafurðum á borð við fiskroð, sem hingað til hefur verið lítt eða ekkert nýtt. Hröð þróun hefur orðið í framleiðsluaðferðum kollagens á síðustu árum og eftirspurn eftir vistvænum afurðum á þessu sviði hefur aukist jafnt og þétt um allan heim.
„Þau fyrirtæki sem sameinast um þetta telja að hægt sé að samnýta þá sérþekkingu sem þarna er til staðar og skapað verðmæti sem skila aðgangi að nýjum mörkuðum. Þarna skapast hátæknistörf og þróun fullvinnslu í sjávarútvegi heldur áfram af krafti,“ segir Tómas Þór.
Áætlað er að skóflustunga að Heilsuvöruhúsi fari fram í vor og eins og áður sagði má reikna með að Heilsuvöruhús taki til starfa fyrri hluta árs 2018.