Nýjast á Local Suðurnes

Framkvæmdir við hringtorg á Reykjanesbraut hefjast á næstu dögum

Vegagerðin og Reykjanesbær sömdu við Ellert Skúlason hf. um framkvæmdina

Undirskrift og handsal - Guðlaugur Helgi Sigurjónsson, Viðar Ellertsson og Svanur G. Bjarnason

Í hádeginu í dag var skrifað undir verksamning milli Vegagerðarinnar og Reykjanesbæjar annarsvegar sem verkkaupa og Ellert Skúlason hf. sem verktaka vegna framkvæmdar við hringtorg við Stekk í Njarðvík. Framkvæmdir munu hefjast á næstu dögum og mun verða lokið í lok október samkvæmt áætlun.

Gert verður ráð fyrir tvöföldun Reykjanesbrautar í þessari hönnun og því verður hringtorgið nokkuð stærra en gengur og gerist. Auk þess að fá hringtorg á þessum gatnamótum mun vinstri beygja frá Hafnarvegi verða bönnuð og mun því öll umferð sem ætlar sér til norðurs frá Hafnarvegi fara um þetta nýja hringtorg.

“Það er mjög ánægjulegt að fá þessa framkvæmd  í gang þar sem um er að ræða líklega ein hættulegustu gatnamót á landinu og mörg ljót slys átt sér stað þarna á undanförnum árum. Einnig er gott að bæta umferðaröryggið við Hafnarvegsafleggjerann,” segir Guðlaugur Helgi Sigurjónsson framkvæmdastjóri Umhverfis- og skipulagssviðs Reykjanesbæjar.

Hægt verður að vinna töluverðan hluta verksins án þess að umferð verði fyrir truflun en vegfarendur eru þó beðnir um að sína aðgát.

“Einhverjar truflanir verða á umferðinni þarna á meðan framkvæmdum stendur en við ætlumst til þess að verktaki standi sig í vegmerkingum og vegfarendur taki tillit til framkvæmda svo allt gangi vel á verktíma,” sagði Guðlaugur

hringtorg

Fyrirhugað framkvæmdasvæði