Nýjast á Local Suðurnes

Tjón vegna eldsumbrota mikið – Reykjanesbær boðar til íbúafundar

Ljósmynd: Reykjanesbær.is / OZZO

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar hefur sent frá sér yfirlýsingu stöðu sem kom upp í sveitarfélaginu í framhaldi af eldsumbrotum í Sundhnúkagíg þann 8. febrúar síðastliðinn. Í henni kemur meðal annars fram að Reykjanesbær muni sem hagsmunagæsluaðili íbúa svæðisins, vinna sleitulaust að framgangi þeirra umbóta sem til þarf til að öruggt sé að sjálfsagðir innviðir og þjónusta séu tiltæk og áreiðanleg og veikum hlekkjum útrýmt. Þá mun sveitarfélagið standa fyrir íbúafundi þann 29. febrúar næstkomandi.

Yfirlýsingin í heild:

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar harmar þá stöðu sem kom upp í sveitarfélaginu í framhaldi af eldsumbrotum í Sundhnúkagíg þann 8. febrúar síðastliðinn, þrátt fyrir þær miklu forvarnir sem var búið að vinna að á svæðinu til að vernda mikilvæga innviði.

Í kjölfarið var neyðarstigi Almannavarna lýst yfir vegna skorts á heitu vatni og var því ekki aflétt fyrr en fimm sólarhringum síðar.

Efst í okkar huga er þakklæti til allra þeirra aðila, af landinu öllu, sem unnu að því að koma aftur á tengingum og lágmarka frekara tjón. Árangur sem þessi næst ekki nema með samstilltu átaki og þrotlausri vinnu.

Það er léttir að hvorki í atburðinum sjálfum né í aðgerðum í framhaldi af honum hafi orðið alvarleg slys á fólki, það skiptir mestu máli. Það er þó ljóst að tjón samfélagsins alls vegna afleiðinga eldsumbrotanna er mikið.

Þó að ástand sé nú orðið stöðugt leggur bæjarstjórn Reykjanesbæjar ríka áherslu á að áfram verði unnið að því af fullum krafti að tryggja að viðlíka ástand skapist ekki aftur. Atburðurinn sýndi fram á að dekkstu sviðsmyndir geta raungerst.

Aðgerðir og samstaða íbúa, starfsfólks sveitarfélagsins og atvinnuveitenda í Reykjanesbæ skipti sköpum þegar koma að því að lágmarka frekara tjón og áhrif af atburðinum, fyrir það ber að þakka.

Stuðningur hins opinbera, annarra sveitarfélaga og einkaaðila um land allt hafa ekki farið framhjá okkur, hann hefur verið ómetanlegur og veitt öllum á svæðinu hugarró og styrk.

Framundan eru fjölmörg verkefni sem þarf að leysa hratt og örugglega. Reykjanesbær mun sem talsmaður og hagsmunagæsluaðili íbúa svæðisins, vinna sleitulaust að framgangi þeirra þar til öruggt er að sjálfsagðir innviðir og þjónusta sé tiltæk og áreiðanleg og veikum hlekkjum útrýmt.

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar hefur boðað til íbúafundar þann 29. febrúar næstkomandi. Fundurinn verður haldinn í Stapa og hefst hann klukkan 19:30. Á fundinum verður meðal annars farið yfir þær aðgerðir sem nú þegar eru í framkvæmd sem og fyrirhugaðar aðgerðir kynntar, ásamt því að opið verður fyrir fyrirspurnir frá fundargestum.

Einnig verður á fundinum erindi frá Ara Trausta Guðmundssyni jarðfræðingi þar sem farið verður yfir stöðuna á Reykjanesskaganum og mögulegri þróun á næstunni.

Íbúar eru hvattir til að fjölmenna, fundurinn verður tekinn upp og einnig verður beint streymi frá fundinum á vefmiðlum Reykjanesbæjar.