Nýjast á Local Suðurnes

Íbúafundur um fjármál Reykjanesbæjar – Staðan grafalvarleg en útlitið er bjart

Opinn íbúafundur bæjarstjóra Reykjanesbæjar, Kjartans Más Kjartanssonar, um fjármál Reykjanesbæjar, verður haldinn í Bergi, Hljómahöll þann 28. janúar næstkomandi klukkan 20.

Á fundinum mun bæjarstjóri fara yfir nýsamþykkta fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar fyrir árin 2016-2019 auk þess sem farið verður yfir framtíðarhorfur í rekstri sveitarfélagsins. Fundarmönnum mun gefast kostur á að koma með spurningar til bæjarstjóra.

Bæjarstjóri skrifaði pistil á heimasíðu sveitarfélagsins um miðjan janúar þar sem hann fór í gegnum stöðuna á fjármálum bæjarins, þar kom meðal annars fram að þrátt fyrir bætta framlegð A-hluta bæjarsjóðs dugi framlegðin þó hvergi til að standa undir afskriftum, vöxtum og fjárfestingum og mun ekki gera næstu árin nema takist að lækka skuldir og um leið vaxtagjöld.

Þá kom einnig fram í pistlinum að vinna við endurskipulagningu skulda Reykjanesbæjar hafi fyrst og fremst falist í undirbúningi, gagnaöflun, greiningu og viðræðum við kröfuhafa með það að markmiði að komast að sameiginlegri niðurstöðu um hver raunverulegur skuldavandi sveitarfélagsins er. Sú vinna gengur samkvæmt pistlinum, mun hægar en vonast var til enda gerólík sjónarmið uppi um þessi flóknu mál.

Staðan grafalvarleg en útlitið bjart

Þrátt fyrir slæma stöðu í augnablikinu telur bæjarstjóri útlitið vera bjart til lengri tíma litið: “…Tvískinnungurinn í þessu er sá að staðan til skamms tíma er vissulega grafalvarleg, og kallar á róttækar aðgerðir svo takast megi að lækka skuldir, en til lengri tíma er útlitið bjart. Þeirri miklu uppsveiflu, sem nú er í spilunum, fylgir mikill framhlaðinn kostnaður vegna fjárfestinga af hálfu sveitarfélagins í nýjum innviðum. Eins og skuldastaðan, vaxtabyrði, rekstrarforsendur og skuldaviðmið sveitarstjórnarlaga eru núna er ekki gott að sjá hvernig á að fjármagna slíkar framkvæmdir.” Segir í pistli bæjarstjóra Reykjanesbæjar.