Nýjast á Local Suðurnes

Seldi allt og flutti til Svíþjóðar – Aðstoðar Vestur-Svía við að kynnast uppruna sínum

Það er óhætt að segja að grunnskólakennarinn Styrmir Barkarson sitji ekki auðum höndum, en þar til fyrir nokkrum mánuðum síðan bjó hann í Reykjanesbæ og starfaði sem kennari við Holtaskóla. Hann tók sig til í júní síðastliðnum og seldi húsið, bílinn og búslóðina og flutti ásamt eiginkonu og tveimur börnum til Svíþjóðar, þar sem hann skráði sig til náms  í frumkvöðlafræði við Háskólann í Lundi.

“Jebb. Seldi húsið og bílinn og búslóðina. Mætti ferskur til Svíþjóðar og frjáls til að mæta framtíðinni hvert sem hún leiðir mig.” Sagði Styrmir léttur í bragði í spjalli við Sudurnes.net.

Hluti af náminu er að stofna raunverulegt fyrirtæki sem lokaverkefni. Styrmir stofnaði ásamt tveimur skólafélögum sínum, Stefanie frá Bandaríkjunum og Sally frá Egyptalandi, ferðaþjónustufyrirtæki sem aðstoðar Vestur-Svía sem vilja tengjast rótunum að ferðast til Svíþjóðar og kynnast uppruna sínum. Í því fellst að framkvæma ýmsar rannsóknir og búa til ferðapakka fyrir viðkomandi.

“Við erum að setja á fót ferðaþjónustu sem þjónustar Vestur-Svía sem vilja tengjast rótunum. Við framkvæmum ættfræðirannsóknir fyrir fólk til að rekja uppruna þeirra og svo búum við til ferðir sem falla að því sem við finnum. Þannig að fólk getur fetað í fótspor forfeðranna.” Sagði Styrmir.

Að sögn Styrmis er aðeins erfiðara að rekja ættir Svía en Íslendinga, enda er ekkert sambærilegt við Íslendingabók þar í landi.

“Það er ekkert á við Íslendingabók hérna. Fólki finnst alveg fáránlega merkilegt þegar ég vippa mér á netið og rek mig aftur til Ingólfs Arnarsonar.  En hér eru stór og flott skjalasöfn, líka á netinu. Við erum um þessar mundir að semja við ættfræðinga um samvinnu.” Segir Styrmir

Styrmir og félagar fá aðstoð frá skólanum varðandi aðstöðu og tengslanet, þá eru styrkir í boði fyrir fyrir nemendur og hafa þau nýtt sér þá að einhverju leyti.

“Við erum komin í samstarf við ferðaskrifstofu um flug og gistingu, og svo hnýtum við þetta saman í pakka þar sem við búum til draumaferð á slóðir forfeðranna.

Skrifstofuna fengum við sem styrk sem við sóttum um. Nemendur í þessu fá sameiginlega aðstöðu til að nota og svo er heilmikið gert fyrir okkur til að rækta tengslanet.” Segir Styrmir.

Það er óhætt að segja að Styrmir sitji ekki auðum höndum, því auk námsins og reksturs ferðaskrifstofunnar, heldur hann úti vefsíðunni Styrmir.net, sem hefur að geyma kennsluefni fyrir yngstu kynslóðina, þá hefur hann staðið fyrir söfnun fyrir hver jól í samstarfi við Velferðarsjóð Suðurnesja, þar sem safnað er jólagjöfum fyrir fátæk börn. Þá sótti Styrmir um starf aðstoðarmanns ráðherra á dögunum, það var þó meira gert í gríni en alvöru.

Styrmir hefur í nógu að snúast, meðal annars við að safna jólagjöfum fyrir fátæk börn um hver jól

Styrmir hefur í nógu að snúast, meðal annars við að safna jólagjöfum fyrir fátæk börn um hver jól

Ferðaskrifstofan, sem heitir Midgard Journeys hefur vakið töluverða athygli í Svíðjóð og hafa þau Styrmir, Stefanie og Sally verið dugleg við að spjalla við þarlenda fjölmiðla, eins og sjá má hér og hér. Þá er hægt að skoða út á hvað verkefnið þeirra gengur  á heimasíðu fyrirtækisins Midgard Journeys.