Nýjast á Local Suðurnes

Landsbankinn selur Miðland – Var einn af stærstu lántakendum Sparisjóðsins

Miðland ehf., fjárfestinga- og fasteignafélag sem stofnað var árið 1979 og hefur fjárfest í landi á Neðra-Nikel svæðinu í Reykjanesbæ, hefur verið auglýst til sölu af Hömlum, dótturfélagi Landsbankans. Eign félagsins er tvíþætt, annars vegar eignarland sem samtals er um 34 hektarar og er skipulagt undir byggingu á allt að 485 íbúðum ásamt atvinnuhúsnæði (1,4 hektarar) og hins vegar samningur við Reykjanesbæ um að Miðland annist gatnagerð á svæðinu og hljóti tekjur af.

Miðland var einn af stærstu lántakendum Sparisjóðsins í Keflavík fyrir hrun og þar með hluti af eignasafni sjóðsins sem færðist yfir til Landsbankans. SpKef Sparisjóður mat virði trygginga vegna Miðlands á 604 milljónir króna við yfirfærsluna til Landsbankans og byggðist matið á áætluðum fjölda íbúða á svæðinu.

midl3

Miðland var einn af stærstu lántakendum hjá Sparisjóðnum. SpKef mat virði trygginga vegna Miðlands á 604 milljónir króna við yfirfærslu til Landsbanka

Deiliskipulag fyrir hluta byggingarlandsins er þegar samþykkt og gerir ráð fyrir byggingu á samtals 300 íbúðum. Gatna-og holræsagerð hefur verið unnin að hluta til á svæðinu og hægt er að hefja framkvæmdir á hluta lóðanna nú þegar. Samkvæmt gildandi Aðalskipulagi Reykjanesbæjar er gert ráð fyrir byggingu allt að 185 íbúða til viðbótar.

Áhugasamir fjárfestar geta óskað eftir því að fá afhenta trúnaðaryfirlýsingu, upplýsingar um hugsanlega hagsmunaárekstra og eyðublað vegna hæfismats. Söluferlið er öllum opið sem uppfylla hæfismat og geta sýnt fram á fjárfestingargetu að fjárhæð 300 milljónir króna.

Tilboðsfrestur rennur út miðvikudaginn 26. október næstkomandi. Nánari upplýsingar má nálgast hjá fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans.