Nýjast á Local Suðurnes

Nýir aðilar í gleraugun á KEF

Íslenska gleraugnaverslunin Eyesland átti hagkvæmasta tilboðið í samkeppni um rekstur gleraugnaverslunar á Keflavíkurflugvelli. Fyrirtækið mun því opna verslun í  flugstöðinni á fyrsta ársfjórðungi næsta árs.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Isavia, rekstraraðila Keflavíkurflugvallar, en þar segir einnig að opnað hafi verið fyrir útboð fyrir gleraugnaverslun fyrr á þessu ári og sendu tvö fyrirtæki inn gögn til þátttöku.

Við mat á tilboðunum var horft til tveggja meginþátta, tæknilegs og fjárhagslegs. Sérfræðiteymi eru á bak við hvorn matsflokk en meðal þess sem hefur áhrif á matið eru vöruúrval, gæði, þjónusta og verð, hönnun, sjálfbærni og markaðssetning.

„Eyesland var stofnað árið 2010 með það að leiðarljósi að bjóða upp á vandaðar vörur á góðu verði. Síðan þá hefur fyrirtækið vaxið og dafnað og við erum gífurlega spennt fyrir komandi tímum í nýju verkefni. Við höfum ávallt lagt áherslu á faglega og persónulega þjónustu og munum halda því áfram í nýrri verslun okkar á Keflavíkurflugvelli. Við hlökkum til að taka þátt í þeirri uppbyggingu sem á sér stað á vellinum,“ segir Sigrún Andersen, hjá Eyesland.  

„Við bjóðum Eyesland velkomin í flugstöðina og hlökkum til samstarfsins. Á sama tíma viljum við þakka Optical Studio fyrir gott samstarf til fjölda ára og óskum þeim velfarnaðar. Þau voru brautryðjendur á þessum markaði í flugstöðinni og hafa veitt góða þjónustu í gegnum tíðina. Lögum samkvæmt, bjóðum við út verslunar- og veitingarými flugstöðvarinnar. Við höfum að leiðarljósi að útboðsferlið sé gagnsætt og úrvinnslan skýr. Enda okkar markmið að allir bjóðendur hafi jafna möguleika á að vinna útboðin, hvort sem þeir eru vanir útboðum eða ekki,“ segir Gunnhildur Erla Vilbergsdóttir, deildarstjóri verslunar og veitinga hjá Isavia, í tilkynningunni.