Nýjast á Local Suðurnes

Strætóútboð ógilt – Reykjanesbær braut gegn meginreglum útboðsréttar

Kærunefnd útboðsmála hefur fellt úr gildi þá ákvörðun Reykjanesbæjar að ganga til samninga við Hópferðir Sævars Baldurssonar ehf. um “akstur á ýmsum leiðum í almenningsvagnakerfi sveitarfélagsins á árunum 2016-2022.” Tvö tilboð bárust í aksturinn, frá Hópferðum Sævars og SBK ehf. og kærði síðarnefnada fyrirtækið þá ákvörðun Reykjanesbæjar að ganga til samninga við Hópferðir Sævars, vegna annmarka á útboði.

Forsaga málsins er sú að SBK ehf. og Hópferðir Sævars Baldurssonar ehf. skiluðu tilboðum í verkið og voru þau opnuð 12. nóvember 2015. Tilboð SBK ehf. nam 97.107.200 krónum í hluta 1 og 25.832.560 krónum í hluta 2. Tilboð Hópferða Sævars Baldurssonar ehf. nam 77.929.600 krónum í hluta 1 og 12.545.800 krónum í hluta 2. Hinn 23. nóvember 2015 sendi Reykjanesbær tölvupóst til þátttakenda í samningskaupunum þar sem óskað var eftir því að báðir aðilar færu aftur yfir kröfur samningskaupagagna og skiluðu inn nýjum endanlegum verðum. Gefinn var frestur til 30. nóvember 2015 til þess að leggja fram „endanlegt verðbilboð.“ Hópferðir Sævars Baldurssonar ehf. skiluðu inn nýjum verðum, um 10 milljón krónum hærri, en upphaflega tilboðið, en SBK ehf. gerði ekki breytingar á sínu tilboði, heldur stóð við fyrri verð.

Af gögnum málsins er ljóst, að mati Kærunefndar, að ástæðan fyrir því að bjóðendum var boðið að gera ný tilboð voru mistök við gerð tilboðs Hópferða Sævars Baldurssonar ehf.

Taldi SBK ehf. að brotið hafi verið gegn meginreglum útboðsréttar um jafnræði, gagnsæi og hlutlægtu mati á tilboðum þegar tilboðsgjafar voru beðnir um að skila inn nýjum tilboðum eftir að upphafleg tilboð höfðu verið opnuð. Taldi SBK ehf. að tilgangurinn hafi einungis verið sá að gefa Hópferðum Sævars Baldurssonar ehf. tækifæri til þess að hækka tilboð sitt en eiga engu að síður lægsta tilboð.

Ákvörðun Reykjanesbæjar um að heimila nýja tilboðsgerð eftir opnun tilboða var þannig ólögmæt að mati Kærunefndar útboðsmála og af því leiðir að ákvörðun um val tilboða sem opnuð voru við síðari opnun tilboða var einnig andstæð lögum. Verður ákvörðun Reykjanesbæjar um að taka seinni tilboðum Hópferða Sævars Baldurssonar ehf. því felld úr gildi, segir í úrskurði nefndarinnar sem finna má í heild sinni hér.